148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. 1. maí nk. munu lágmarkslaun á Íslandi verða hækkuð og verða 300.000 kr. 1. júlí nk. mun mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækka upp í 11,5%. Það þýðir að á tveimur árum eða frá júlí 2016 hefur mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð hækkað úr 8% í 11,5%. Ég leyfi mér að fullyrða að fátt skiptir íslenskt launafólk meira máli en einmitt að byggja upp lífeyrisréttindin. Við munum horfa fram á veginn í þeim efnum, að lífeyrisréttindi almennra launamanna munu aukast verulega á næstu árum og áratugum. Það er vel.

En ég vek einnig athygli á því að þessi þróun verður til þess að svokallaður skattfleygur, þ.e. í sinni einföldu mynd munurinn á ráðstöfunartekjum eða því sem launamaðurinn heldur eftir í launaumslaginu og kostnaði atvinnurekanda við viðkomandi starfsmann, er að aukast. Þegar atvinnurekendur og launþegar setjast niður og semja um kaup og kjör er bilið sem þeir horfa á alltaf að aukast.

Þess vegna skiptir miklu máli að við stígum hér skref í þá átt að minnka þennan mun. Það er m.a. gert með því að lækka álögur á launafólk, með því að lækka tekjuskatt, með því að hækka persónuafsláttinn og hafa hann stiglækkandi eins og við hæstv. forsætisráðherra áttum samtal um í gær, og með því að lækka tryggingagjaldið. Þetta skiptir máli, að ná niður þeim mun sem er á milli þess sem atvinnurekandinn horfir á sem kostnað og þess (Forseti hringir.) sem launamaðurinn sjálfur lítur á að hann fái í sinn hlut sem eru ráðstöfunartekjur hans. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af stóru verkefnum þessa þings, herra forseti.