148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er gott að búa á Íslandi. Stundum velti ég því fyrir mér hvers konar kraftur er í okkur á flestum sviðum. Við heyrum í sífellu fréttir af afreksfólki í íþróttum, bókmenntum, listum, viðskiptum, rannsóknum og vísindum og ótrúlegt stundum að við skulum ekki vera fleiri en 340.000. Tekjujöfnuður er hér líka meiri en víðast í heiminum og jafnrétti kynjanna sömuleiðis. Lífskjör hafa vissulega batnað mikið á síðustu áratugum. En þótt meðallífskjör hafi batnað mikið lifum við ekki eða hrærumst í meðaltölum og vísitölum og hver og einn sem ekki getur framfleytt sér skiptir miklu máli. Við nærumst ekki á miðgildum.

Mikill fjöldi venjulegs launafólks, aldraðra og öryrkja nær ekki endum saman og þarf jafnvel að neita sér um læknisþjónustu eða aðra sjálfsagða hluti. Eignastaða ungs fólks er slæm og margar barnafjölskyldur hrekjast um á dýrum og óöruggum leigumarkaði með vondum afleiðingum fyrir bæði fjölskyldulífið og börnin. Fátækt er þjóðarskömm í ríku landi eins og Íslandi og það ætti að vera fyrsta forgangsverkefni hverrar ríkisstjórnar að grípa í taumana til að bjarga þeim hópum.

Misskipting hér á landi er auk þess mikil og þótt hún sé e.t.v. minni en annars staðar er eignaójöfnuður alvarlegt vandamál á Íslandi. Ríkasta 1% landsmanna jók hreina eign sína um 53 milljarða kr. á árinu 2016 og sá hópur á meira af hreinum eignum en þau 80% landsmanna sem minnst hafa.

Ójöfnuðurinn er stöðugt að aukast og auðurinn auk þess að færast á færri hendur. Nýjustu tölur frá fjármálaráðuneytinu sýna að tekjur ríkustu fjölskyldna á Íslandi jukust hlutfallslega miklu meira en allra hinna. Sífellt fleiri alþjóðlegar rannsóknir sýna að samfélög þar sem jöfnuður er mikill eru betri, þau eru friðsamlegri, fjölbreyttari og samkeppnishæfari. Það ætti að vera brýnasta verkefni hverrar ríkisstjórnar að ráðast gegn vaxandi ójöfnuði og spillingu á Íslandi en þegar rýnt er í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur í ljós að þessi verkefni eru sett á ís.

Eftir loforðaflaum í síðustu kosningum biðu margir eftir þessu mikilvæga plaggi sem sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar svart á hvítu. Þótt maður hafi í grófum dráttum getað getið sér til um hvað yrði í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verð ég að viðurkenna að ég leyfði mér að vona að áhrif Vinstri grænna yrðu til þess að framlög nægðu betur til að takast á við bráðavanda ýmissa innviða, grípa til varna fyrir lág- og millitekjufólk auk þess að milda hömlulausa hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að skattamálum. Nú liggur fjármálaáætlun sem sagt fyrir og fögur fyrirheit Vinstri grænna frá því í kosningum, „gerum betur“, eru að engu orðin.

Sífellt færri fjölskyldur njóta barnabóta. Fjölskyldunum sem fengið hafa stuðning hefur fækkað um rúmlega 12.000 frá árinu 2013 og svo virðist sem áfram eigi að fylgja þessari niðurskurðarstefnu undir forystu Vinstri grænna. Áfram munu barnabætur byrja að skerðast langt undir lágmarkslaunum. Slík skerðing mun stuðla að meiri fátækt meðal vinnandi fólks en fátækt meðal barnafjölskyldna er meiri en hjá barnlausum fjölskyldum. Hægt væri að mæta fátækum barnafjölskyldum í gegnum húsnæðiskerfið en það verður áfram í rusli. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er húsnæðisstuðningur skorinn enn frekar niður eftir mikinn niðurskurð í fyrra þrátt fyrir hávært ákall um umbætur. Í fjármálaáætluninni vantar allan metnað til að byggja leiguíbúðir. Ekkert er hlustað á kröfur verkalýðshreyfingarinnar um frekari uppbyggingu almennra leiguíbúða. Ekkert er gert fyrir fátæka eða leigjendur sem eru fastir í fátæktargildru leigumarkaðarins. Auk þess eru háskólarnir fjársveltir og framhaldsskólarnir komnir að þolmörkum. Einungis er gert ráð fyrir einum þriðja af því sem lofað var í háskólana og framhaldsskólarnir fá ekkert sem máli skiptir. Peningurinn sem sparaðist með styttingu námsins í þrjú ár á með öðrum orðum að renna áfram í ríkiskassann, ekki til að efla framhaldsskólana.

Á hinum Norðurlöndunum er hins vegar horft til uppbyggingar og fjárfestingar í þekkingu og menntun samhliða uppbyggingu á velferðarkerfinu. Áætlun ríkisstjórnarinnar endurspeglar einfaldlega ekki þá stórsókn sem boðuð var og ég hef raunar miklar áhyggjur af metnaðarleysi hennar í menntamálum. Það snýr ekki bara að framtíðinni, það bitnar líka mjög hart á landsbyggðinni.

Þar fyrir utan eru framlög til menningar, lista, íþrótta og æskulýðsmála beinlínis skorin niður á næstu fimm árum.

Aldraðir og öryrkjar hafa lengi beðið eftir kjarabótum þurfa áfram að bíða því að framlögin aukast ekki nema rétt sem því nemur að duga fyrir fjölgun í þessum hópi. Formaður Öryrkjabandalagsins hefur raunar kallað þessa stefnu ávísun á fátækt og eymd.

Heilbrigðiskerfið er að niðurlotum komið. Framlög til heilbrigðismála aukast vissulega í nýrri fjármálaáætlun og fjármagn til byggingar nýs Landspítala er tryggt, þó það nú væri. En hann verður ekki byggður á einni nóttu og óljóst hve mikið af framlögum fer í að bæta rekstrarumhverfi spítalanna í millitíðinni.

Stefna stjórnmálaflokka í efnahags- og skattamálum er oftast einkennandi fyrir flokkana og sú stefna oftast notuð til að staðsetja flokkana frá hægri til vinstri. Sjálfstæðisflokkur og VG eru í grundvallaratriðum ósammála um hlutverk skattkerfisins. Sá fyrrnefndi álítur það einungis hlutverk skattkerfisins að standa fyrir nauðsynlegri tekjuöflun og talar um einföldun kerfisins. Hinn síðarnefndi hefur talað fyrir þrepaskiptu skattkerfi og vill að einnig sé hugsað til tekjujöfnunar. Hvorugt virðist þó vera raunin, í fjármálaáætluninni eru 20–30 milljarða tekjur gefnar eftir og skattalækkanir sem boðaðar eru nýtast best þeim tekjuhæstu á kostnað lág- og millitekjuhópanna. Boðuð er lækkun á neðra skattþrepið um 1 prósentustig og tekið fram að það rýri tekjur ríkissjóðs um 14 milljarða kr. Sú breyting dugar hins vegar best þeim sem eru með hæstu tekjurnar. Fólkið á lægstu laununum fær 3.000 kr. á mánuði á meðan við sem erum á hæstu laununum fáum 9.000 kr.

Ef persónuafsláttur hefði aftur á móti verið hækkaður um 3.000 kr. hefði það kostað ríkissjóð 8 milljarða kr. og þá hefði verið hægt að nota 6 milljarða kr. til að efla barnabótakerfið og húsnæðisstuðninginn. Sú leið myndi auka jöfnuð en þær breytingar sem boðaðar eru hér auka ójöfnuð sem er þegar orðinn allt of mikill í okkar samfélagi. Í fjármálaáætluninni er sem sagt verið að sníða skattkerfið að hag hinna ríku sem kæmi auðvitað ekkert á óvart ef Sjálfstæðisflokkurinn væri einn í ríkisstjórn en hann er það ekki. Hann er undir forsæti sósíalista.

Þá er talað um í fjármálaáætluninni að lækka eigi bankaskatt upp á tæpa 6 milljarða kr. og það eigi að breyta fjármagnstekjuskattinum þannig að einungis fjármagnseigendur í landinu, þessir sömu og þegar hafa safnað sér megninu af nýjum auð sem hefur skapast, verða varðir fyrir verðbólgu. Áfram mun hins vegar almenningur með verðtryggð lán þurfa að borga þegar óstjórnin í ríkisfjármálum hleypir verðbólgunni aftur af stað.

Það er óskynsamleg að gefa eftir þessar tekjur á toppi hagsveiflunnar um leið og ráðast á í varanlega og vissulega nauðsynlega útgjaldaaukningu. Hér er ekki verið að búa í haginn fyrir mögru árin. Þvert á móti kallar þessi stefna á hærri vexti og verðbólgu. Það er verið að stíga bensíngjöfina í botn á toppi uppsveiflunnar án þess að afla tekna fyrir útgjöldum. Það gefur því augaleið að ef bjartsýnustu hagspár ganga ekki eftir þarf að draga saman, þá fer niðurskurðarhnífurinn á loft — og hvað verður fyrst fyrir honum? Jú, velferðin.

Reynslan sýnir okkur að það styttist í næstu niðursveiflu og fallið gæti orðið enn hærra en ella. Raunar má segja að í þessu felist bæði hagstjórnarleg mistök og kosningasvik þar sem stórsókn í innviðauppbyggingu er langt frá því sem flokkarnir lofuðu fyrir kosningar. Það þarf að svara kalli þjóðarinnar eftir nauðsynlegri innviðauppbyggingu og efna kosningaloforð allra flokka (Forseti hringir.) en ekki ganga á bak orða sinna strax daginn eftir til að tryggja sér nokkra ráðherrastóla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)