148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera dálítið berorðari í þessari ræðu en ég er alla jafna. Ég geri það til að undirstrika hversu alvarlegt ég tel málið vera. Fyrri umr. um þessa fjármálaáætlun hefur nefnilega ekki svarað þeim fjölmörgu áhyggjum sem ég hafði um þessa áætlun. Þessi umræða hefur einungis aukið þær áhyggjur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég get haft rangt fyrir mér en í umræðunni leitaði ég sérstaklega eftir útskýringum á því af hverju áhyggjur mínar væru ekki á rökum reistar. Svörin voru því miður ekki góð. Fjármálaáætlunin sýnir svart á hvítu að hér er verið að auka útgjöld ofan á veika tekjustofna í kólnandi hagkerfi.

Það er einfaldlega ekki sjálfbært nema ef um einskiptisaðgerðir væri að ræða. Það er hins vegar engin aðgengileg útskýring á því hversu mikið af útgjaldaaukningunni er varanlegt og hversu mikið er eins skiptis. Það er hins vegar augljóst að um þó nokkur varanleg útgjöld er að ræða og burt séð frá því hversu margar óskir ríkisstjórnin hefur gengur þetta dæmi ekki upp án þess að tekjur séu auknar á móti eða hagrætt sé á öðrum stöðum í staðinn.

Það er vissulega verið að auka tekjur lítillega en það eru sérstakar tekjur sem almennt er ekki ætlað til að standa undir kostnaði af grunnþjónustu ríkisins eins og t.d. kolefnisgjald. Það sem veldur mér áhyggjum er að þegar bent er á þessa staðreynd, hækkandi útgjöld og lækkandi tekjur, er henni ekki svarað beinum orðum heldur er athyglinni beint að því að skuldastaðan verði bara í fínasta lagi á tímabilinu þannig að það verður bara allt í lagi að reka ríkissjóð með halla í smátíma. Þessi staðhæfing kom frá síðasta aðilanum sem ég bjóst við að myndi segja það, sjálfum fjármála- og efnahagsráðherra. 1. varaformaður fjárlaganefndar kallar þetta innspýtingu í kólnandi hagkerfi eða eins og hv. 1. varaformaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, orðaði það, með leyfi forseta:

„Spennumerki þenslu eru að minnka. Er þá ekki skynsamlegt að við slökum á skattaklónni og aukum ríkisútgjöldin til að vega þar á móti? Það eru meginskilaboðin í þessari fjármálastefnu.“

Þetta segir 1. varaformaður fjárlaganefndar sem svar við hagspá sem gerir ráð fyrir mjúkri lendingu inn í það sem margir myndu segja tiltölulega sjálfbæran hagvöxt. Ég hef að vísu ýmislegt við það að athuga en allt í lagi, það er mjög gott að fá þetta fram, þá vitum við það. Það er ekki hægt að lesa það í texta fjármálaáætlunarinnar að verið sé að spýta í í kólnandi hagkerfi, en fyrir þá sem grúska í henni lítur þetta út fyrir að vera málið. Ég lít þá svo á að þetta sé staðfest með þessum orðum hv. 1. varaformanns fjárlaganefndar. Þetta sýnir einfaldlega líka mikilvægi umræðunnar og spurninganna sem við spyrjum til að koma þá þessum skilaboðum á framfæri.

Virðulegi forseti. Við glímum við það vandamál eins og kom fram í umræðu og athugasemdum við fjármálastefnu að spálíkön okkar fyrir hagkerfið eru einsleit og hafa skilað ónákvæmum niðurstöðum. Ein ástæða fyrir því er sögð vera að spálíkönin fá ekki að taka tillit til stefnu stjórnvalda. Þau mæla bara afleiðingar stefnunnar en nota hana ekki sem breytur til að sjá hvaða áhrif stefnan hefur á framtíðina. Á sama tíma og fjármálaráðherra segir að það verði að styðjast við þær hagspár sem fyrir liggja, sem er alveg rétt, þá er einnig brugðist við þeim með þeim aðgerðum sem hefur verið lýst hér á undan, auknum útgjöldum og lækkuðum tekjustofnum. Miðað við þau meginskilaboð og að markmið fjármálaáætlunarinnar virðist vera að auka hagvöxtinn enn frekar, setja þensluna aftur af stað, er ekki nema von að spálíkönin skili aldrei réttum niðurstöðum.

Ofan á allt þetta bætast síðan við hugmyndir um að ef allt fer á hliðina sé eignastaðan svo sterk að það verði alltaf hægt að redda stöðunni með því að fá bara hærri arðgreiðslur eða selja banka. Hvernig var þetta aftur á árunum fyrir hrun? Var þá ekki hitt og þetta selt til að fjármagna t.d. nýjan Landspítala fyrir andvirðið? Hvert fóru þeir peningar að lokum? Fóru þeir ekki beint bara í skuldir aftur? Sumir hafa nefnilega sagt að sem betur fer hafi skuldastaða ríkissjóðs verið góð fyrir hrun, annars hefðum við skuldað miklu meira. Ég get hins vegar sagt nákvæmlega sömu sögu með öðrum endi, ef ekki hefði verið farið svona skarpt í sölu á bönkunum hefði ekki orðið hrun. Ég er ekki að draga þá sögu upp úr einhverjum hatti, það má finna þessa útgáfu í 6. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna.

Það sem ég les úr þessari fjármálaáætlun er gríðarlega óábyrg hagstjórn, hér vísa ég í þessa berorðu umræðu sem ég nefndi áðan, sem á bara að redda með hallarekstri í smátíma eða sölu á ríkiseignum því að það verður að klára góðu málin. Ekki misskilja mig, ég er alveg sammála því að það verður að klára góðu málin en það verður að gera það rétt og á ábyrgan, sjálfbæran og gagnsæjan hátt. Gagnsæjan af því að það skiptir máli að segja hvert eigi að stefna og hvernig eigi að stefna þangað. Þannig virkar festa og stöðugleiki. Fjármálastefnan sem hér birtist segir mikið um hvert en ekkert um hvernig, bara að hækka útgjöld og minnka tekjur. Þegar skoðað er hvert eigi að fara samkvæmt allri upptalningunni passar það ekkert við fjárhæðirnar sem eru lagðar í verkefnin. Það er ómögulegt að það verði hægt að ná öllu því saman sem er talið upp með þeim peningum sem eru lagðir fram í þessari fjármálaáætlun, fjárhæðirnar og verkefnin passa ekki saman. Verkefnin eru alla vega ekkert útskýrð, hvað þau kosta og hver kostnaðaráætlunin við þau er, þannig að við getum ekkert skoðað það af einhverri gagnrýni. Ég vona að það komi þá vel fram í nefndarvinnunni.

Þegar ég spyr nánar um það hvernig eigi eiginlega að láta enda ná saman, hvernig orð passi við þá peninga sem eru lagðir til verkefnanna, fæ ég bara svör um að það eigi að uppfæra fjármálaáætlunina á næsta ári.

Virðulegi forseti. Það gengur einfaldlega ekki. Ástæðan fyrir því að við erum að setja áætlun til fimm ára er sú að fá fyrirsjáanleika og festu í ríkisfjármálin. Það þýðir ekki bara að setja einhverjar tölur á næstu ár, 2020–2023, þær verða að þýða eitthvað. Annars erum við bara að eyða tíma þingsins í innihaldslausar tölur. Og hvers konar virðing fyrir Alþingi er það? Hvers konar efling á starfi Alþingis er það? Það er bara tímaeyðsla ef tölurnar fram yfir árið 2019 eru bara innihaldslausar og geta breyst alveg gríðarlega mikið í rauninni. Það eru a.m.k. skilaboðin sem ég fékk úr umræðunni í gær.

Virðulegi forseti. Áskoranirnar eru vissulega margar. Við vissum það þegar við gengum til kosninga sl. haust. Samgöngukerfið er að molna niður, það þarf nauðsynlega að klára nýjan Landspítala, húsnæðismarkaðurinn er langt frá því að vera í eðlilegu ástandi, kjarabaráttan er á næsta leiti og á sama tíma og allir eru að komast úr góðærissveiflu hefur enginn efni á því að láta góðærið gagnast launafólki. Uppsveiflan kom, er að fara og giskið á hverjir stungu henni í vasann á meðan allir aðrir upplifa hina meingölluðu brauðmolakenningu. Meingölluðu af því að það er bara skorpan og þurra brauðið sem fellur af borðinu til þeirra sem fá ekki að sitja við það.

Virðulegi forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í svar hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur við stefnuræðu forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar:

„Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær til að mynda sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja gjarnan vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.“

Virðulegi forseti. Vaxandi misskipting valds sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafa verið þær að ekki megi virkja lýðræðið, að ekki megi leyfa þjóðinni að ráða því sem er hlutverk hinna útvöldu, að ekki megi hrófla við kerfinu og þegar stungin eru göt á hið sjálfbólgna kerfi flykkjast varðhundar valdsins í ræðustól og halda vandlætingarræður en heykjast svo á því að taka á kerfinu og sameinast því frekar.

Það var pólitísk ákvörðun að mynda ríkisstjórn sem hleypir ráðherra sem laug að þjóðinni í stól fjármálaráðherra. Það var pólitísk ákvörðun að mynda ríkisstjórn sem hleypir ráðherra sem hleypir heilu nýju dómstigi í uppnám í stól dómsmálaráðherra. Það er pólitísk ákvörðun að hækka útgjöld og lækka skatta. Þegar kjaraviðræður koma og fara og verðbólgan fer á flug, ekki kenna launafólki um. Bendið á fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar og þau hagstjórnarlegu mistök sem hún býður upp á, ekki kenna öðrum um. Axlið ábyrgð á eigin gjörðum.