148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þótt síðasta ár hafi verið umhleypingasamt í stjórnmálum, jafnt á Íslandi sem erlendis, eru meginlínurnar í íslenskri utanríkisstefnu skýrar og markmiðin þau sömu og áður: Að tryggja öryggi og varnir landsins, viðskiptahagsmuni erlendis og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar, auk þess að hafa í heiðri grundvallargildi mannréttinda, mannúðar og jafnréttis. Á þeim eitt hundrað árum, sem liðin eru síðan Ísland varð frjálst og fullvalda ríki, með sambandslögunum 1918, hafa þessar meginlínur verið þær sömu þótt Íslendingar hafi stigið fyrstu skrefin í utanríkis- og varnarmálum sem hluti af danska konungsríkinu. Fyrir eitt hundrað árum gengu Íslendingar formlega í samfélag þjóðanna og þá hófst jafnframt samleiðin með öðrum vestrænum ríkjum sem búa við frelsi og lýðræði, mannréttindi og frjálst hagkerfi.

Síðari heimsstyrjöldin færði Íslendingum heim sanninn um að gamla hlutleysisstefnan tryggði ekki lengur frið og öryggi. Því var nauðsynlegt að hverfa frá henni og gerast þátttakandi í öryggismálasamstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Í stjórnarsáttmálanum segir:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum. Þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var af Alþingi verður höfð að leiðarljósi.“

Línurnar hafa einnig verið skýrar í utanríkisviðskiptum. Á fyrstu árum fullveldisins sendu íslensk stjórnvöld viðskiptafulltrúa, svokallaða fiskifulltrúa, til að afla markaða erlendis. Hinir örfáu fiskifulltrúar voru undanfarar umfangsmikils viðskiptastarfs sem utanríkisþjónustan hefur unnið á seinni árum. Allt frá því er Íslendingar tóku utanríkismálin í sínar hendur hefur utanríkisþjónustan leitast við að tryggja útflutningshagsmuni og vinna að fríverslun í þágu landsmanna. Af þessum meiði er aðildin að Fríverslunarsamtökum Evrópu og Evrópska efnahagssvæðinu. Íslendingar hafa borið gæfu til að stýra fleyi sínu vel í þessum efnum, og hefur ríkisstjórnin mótað afgerandi afstöðu til Evrópusambandsins, enda segir í stjórnarsáttmálanum að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið með því að standa áfram utan Evrópusambandsins.

Með fullveldinu hófst smám saman hin farsæla samleið Íslands í ríkjahópi Norðurlandanna enda kveður sáttmáli ríkisstjórnarinnar m.a. á um að norrænt samstarf verði áfram einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Fram undan er á næsta ári formennska Íslands í Norðurlandasamstarfinu, sem einnig felur í sér samráð við Eystrasaltsríkin, útverði Atlantshafsbandalagsins í austri. Á því ári hefst einnig formennska í Norðurskautsráðinu þar sem við styðjum vísindasamstarf, sjálfbæra nýtingu auðlinda og málefni frumbyggja á mörgum sviðum. Í ljósi örra breytinga á norðurslóðum ríður á að aðildarríki ráðsins gæti hagsmuna sinna og svæðisins í víðum skilningi með hin 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Þrátt fyrir að eitt hundrað ára saga fullveldis og lýðveldis hafi verið farsæl hefur þjóðin oft gengið í gegnum erfiða tíma. Minnist ég þeirra fjölmörgu sem fórust við að tryggja þjóðinni útflutningstekjur á stríðsárunum en talið er að 211 manns, eða 0,17% af íbúafjölda landsins, hafi látist af völdum ófriðarins, nær sama hlutfall og hjá Bandaríkjamönnum. Mjög reyndi á einingu landsmanna í kalda stríðinu og hinn erfiði tími fyrir einum áratug, þegar fjármálakreppan hófst, er Íslendingum enn í fersku minni. Það er því mikilvægt að hafa í huga að farsæld þjóðarinnar ræðst af ytri aðstæðum og getu hennar til að skilja breytingarnar í umhverfinu, svara kalli tímans og bregðast rétt við.

Eftir fall Sovétríkjanna var frekar tíðindalaust, ef svo mætti að orði komast, í öryggismálum í norðurhöfum og Norður-Evrópu, jafnvel svo að bandarísk stjórnvöld ákváðu að flytja varnarlið sitt á brott frá Íslandi. Nú eru aftur á móti óvissutímar í öryggismálum í Evrópu sem bregðast þarf markvisst við.

Efnavopnaárásin í enska bænum Salisbury í upphafi marsmánaðar er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar. Árásin hefur kallað á samstilltar aðgerðir Vesturlanda. Norðurlöndin, mörg samstarfsríki í Atlantshafsbandalaginu og ýmis aðildarríki Evrópusambandsins ákváðu að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Ríkisstjórn Íslands ákvað, í samráði við utanríkismálanefnd, að taka þátt í þessum aðgerðum og hefur öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verið frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi á komandi sumri.

Virðulegi forseti. Enn á ný tryggjum við öryggi okkar með virkri þátttöku í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, Atlantshafsbandalaginu, og með varnarsamningnum við Bandaríkin. Góðar varnir og öflugt eftirlit á Norður-Atlantshafi er grundvallarþáttur í þeim efnum. Öryggi í Evrópu kallar einnig á virka þátttöku ríkja álfunnar, þar með talið Íslands, í fjölbreytilegu svæðasamstarfi, þar sem iðulega koma saman fulltrúar þjóða sem eru á öndverðum meiði í stjórnmálum, samfélagsgerð og gildum. Á slíkum vettvangi geta Íslendingar lagt sitt af mörkum, og stundum tekið forystu, til að bæta sambúð og samstarf þjóða og tala máli lýðræðis, mannréttinda og viðskiptafrelsis. Í fyrra lauk formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu þar sem tókst að halda fyrsta ráðherrafund í ráðinu eftir að Rússland beitti hervaldi í Úkraínu.

Virðulegi forseti. Ég hef iðulega í ræðu og riti vakið athygli á því að viðskiptamynstur heimsins er að breytast og að Íslendingar þurfi að breyta verklagi sínu í samræmi við það. Viðskiptaleiðirnar, sem voru beinar og breiðar áratugum saman, eru nú krókóttar og lúta öðrum lögmálum en áður í hraða, fjarskiptum og tækni. Ef takast á að vinna nýja útflutningsmarkaði í fjarlægum heimsálfum og auka útflutningstekjur þarf að nota til þess öll þau tæki sem við höfum, ekki síst utanríkisþjónustuna.

Utanríkisþjónusta Íslands er lifandi tæki til að tryggja víðtæka hagsmuni Íslands erlendis. Hagsmunir og áherslur breytast eðli málsins samkvæmt og þarf utanríkisþjónustan að taka mið af því, samhliða því að hafa í heiðri þá aðferðafræði sem þjóðir heims hafa komið sér saman um að nota í milliríkjasamskiptum og endurspeglast í Vínarsamningnum um stjórnmálasamband.

Fyrsta skýrsla mín sem utanríkisráðherra til Alþingis, fyrir tæpu ári, var að miklu leyti miðuð við markmið í utanríkismálum. Var gengið út frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og leitast við að sýna skýr markmið, mælikvarða og aðgerðir á greinargóðan hátt. Í skýrslunni, sem ég legg fram á Alþingi í dag, er gengið enn lengra hvað þetta varðar og nýt ég þess að í haust er leið lauk gerð skýrslu sem kallast Utanríkisþjónusta til framtíðar. Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi og kynnt hefur verið opinberlega. Skýrslan um utanríkisþjónustuna var árangur umfangsmikillar vinnu í ráðuneytinu og samráðs við fjölmarga hagsmunaaðila í samfélaginu. Í henni er sett fram 151 tillaga um aðgerðir til að styrkja starf utanríkisþjónustunnar. Í skýrslu minni um utanríkismál, sem ég legg fram í dag, er fyrir vikið meiri umfjöllun um skipulag og starfshætti utanríkisþjónustunnar en tíðkast hefur hingað til. Þetta er gert með það í huga að veita Alþingi og almenningi betri innsýn í verkefni og störf utanríkisþjónustunnar sem oft hefur verið erfitt að fjalla um vegna trúnaðarbindingar og viðkvæmrar stöðu þeirra mála sem unnið er að. Ég vil því verja nokkru af tíma mínum hér í dag til að gera grein fyrir því hvernig breytingum í utanríkisþjónustunni er ætlað að styrkja hin pólitísku stefnumið.

Óhætt er að fullyrða að nú séu í farvegi umfangsmestu breytingar innan utanríkisþjónustunnar í langan tíma. Fyrir lok júní næstkomandi er gert ráð fyrir að rúmlega 70% tillagnanna í fyrrnefndri skýrslu verði komin í framkvæmd. Tvær nýjar skrifstofur eru nú í ráðuneytinu, þ.e. ný skrifstofa ráðuneytisstjóra og endurvakin hefur verið sérstök varnarmálaskrifstofa. Nýjar deildir hafa tekið til starfa, þar með taldar deild heimasendiherra og deild stjórnsýslueftirlits, auk þess sem upplýsingadeild hefur verið fengið það nýja hlutverk að hafa umsjón með greiningu ýmissa málefna, svo sem hagsmunagæslu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Á þróunarsamvinnuskrifstofu hefur ný deild fyrir atvinnulíf og svæðasamvinnu tekið til starfa og deild fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu mun leiða hið umfangsmikla samræmingarstarf kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Alþjóðabankanum þegar Ísland gegnir formennsku í samstarfinu til tveggja ára (2019–2021). Auk þess hefur ný kjörræðisdeild verið stofnuð og starfsemi Íslensku friðargæslunnar verið efld með því að færa hana til varnarmálaskrifstofu. Er það vissa mín að nýtt skipulag verði til að styrkja starf ráðuneytisins.

Utanríkisþjónustan þarf að ganga hönd í hönd með atvinnulífinu inn á ný markaðssvæði og veita því aðstoð sína, einkanlega í löndum þar sem atbeini opinberra aðila er nauðsynlegur til að greiða götu viðskipta. Nota þarf starfsstöðvar í fjarlægum heimsálfum til að opna dyr að nýjum mörkuðum. Sendiráð Íslands hafa lengi haft stór umdæmissvæði og það er oft erfitt að sinna öðrum umdæmisríkjum en gistiríkinu. Til að mæta þessu vandamáli hefur verið stofnuð ný deild heimasendiherra. Fyrirsvar gagnvart mörgum ríkjum hefur verið flutt til Íslands og falið í hendur reyndum sendiherrum sem sinna munu þessum ríkjum frá Íslandi. Hleypt hefur verið nýju lífi í það fyrirkomulag að sendiherrar heima fyrir sinni einnig ákveðnum málaflokkum eða þemum og geti þannig myndað sterkari tengsl við íslenskt atvinnulíf og eflt viðskipti, nýsköpun og ímynd landsins. Fimm sendiherrar eru nú við störf í deildinni og sinna þeir fjölmörgum ríkjum, en auk þess mikilvægum málaflokkum, eins og til dæmis jarðhitamálum og jafnréttismálum.

Ný deild kjörræðismála hefur umsjón með um 230 kjörræðismönnum í um 90 ríkjum. Kjörræðismenn eru mikilvægir útverðir utanríkisþjónustunnar í viðskiptaþjónustu og borgaraþjónustu. Einnig er verið að endurmeta mögulegan fjölda kjörræðismanna og staðsetningu þeirra í einstökum heimshlutum, einkum í nýmarkaðsríkjum.

Þjónusta við íslenska borgara erlendis er eitt af meginverkefnum utanríkisþjónustunnar. Í hverjum mánuði berast um 700 borgaraþjónustuerindi til aðalskrifstofu ráðuneytisins og um 2.200 til sendiskrifstofa. Í heildina má því ætla að yfir 30.000 erindi af margvíslegum toga berist á ári hverju. Utanríkisráðuneytið er með sólarhringsvakt allan ársins hring fyrir aðkallandi aðstoðarmál íslenskra borgara, hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

Nú eru starfandi 25 sendiskrifstofur í 21 landi, þ.e. 17 tvíhliða sendiráð, fjórar fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og fjórar aðalræðisskrifstofur. Á síðasta ári var einu sendiráði lokað, í Mósambík, og nú í vor mun sendiráðsstarfsemi í Vín gagnvart Austurríki leggjast af, en í Vínarborg mun áfram starfa fastanefnd gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).

Sendiskrifstofur Íslands eru nú reknar með minnsta mögulega mannafla. Sem dæmi má nefna hafa 11 þeirra, eða tæplega helmingur, aðeins einn útsendan starfsmann, þ.e. forstöðumann, frá Íslandi. Aðrir eru staðarráðnir. Þetta kemur vel fram í umfjöllun um sendiskrifstofurnar í skýrslunni, sem ég legg nú fram, en þar er bryddað upp á því nýmæli að hafa upplýsingar um hverja sendiskrifstofu. Birtar eru tölfræðilegar upplýsingar, sem teknar voru saman á fyrri hluta ársins 2017, um hlutfallslega skiptingu verkefna, viðskipti, starfsfólk og kostnað, auk þess sem hver sendiskrifstofa gerir grein fyrir stöðunni eins og hún er í dag.

Framlög til sendiskrifstofa og aðalskrifstofu utanríkisþjónustunnar (án þýðingamiðstöðvar og Íslandsstofu) nema um 5 milljörðum kr., 0,61% af heildarútgjöldum ríkisins. Eru þessi framlög lægri hlutfallslega en undanfarin ár, en þau námu 0,7% árin 2007 og 2012, svo dæmi séu tekin. Fjárframlögin til sendiskrifstofa og aðalskrifstofu hafa einnig lækkað sem hlutfall af framlögum til utanríkismála síðan 2012, en þá var hlutfallið 40%, en er nú ríflega 32%.

Hvað heildarframlög til utanríkisþjónustunnar varðar nema þau á fjárlögum 2018 tæplega 14.961 millj. kr., eða um 1,8% af heildarútgjöldum ríkisins. Þar af rennur um það bil helmingur, eða 6.971 milljón kr., til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana.

Virðulegi forseti. Sérstök varnarmálaskrifstofa hefur verið endurreist í utanríkisráðuneytinu í samræmi við tillögu þar að lútandi í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar. Endurspeglar það áhersluna á varnar- og öryggismál og þann ásetning að við Íslendingar séum virkir þátttakendur í öryggissamstarfi vestrænna þjóða. Öflug varnarmálaskrifstofa verður í stakk búin til að takast á við þær breytingar og óvissu sem nú er í öryggismálum í okkar heimshluta. Hún hefur að bakhjarli þjóðaröryggisráð og þjóðaröryggisstefnu sem nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis.

Íslendingar verða sjálfir að vera þátttakendur í aðgerðum til að tryggja öryggi landsins. Á undanförnum árum hafa framlög til öryggis- og varnarmála heima fyrir og á vettvangi NATO verið aukin í samræmi við skuldbindingar bandalagsríkja um viðbúnað og jafnari byrðar. Lögð hefur verið áhersla á að endurnýja og bæta varnarinnviði á Íslandi, efla gistiríkjastuðning við loftrýmisgæsluna, leggja til fjármagn í stuðnings- og átakssjóði bandalagsins og auka virkari þátttöku borgaralegra sérfræðinga í verkefnum bandalagsins.

Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og starfræksla ratsjárkerfisins, sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu, er veigamikill þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna bandalagsins. Fengist hefur umtalsverður stuðningur úr Mannvirkja- og innviðasjóði NATO og er búið að heimila greiðslur úr sjóðnum vegna endurnýjunar á ratsjárstöðvunum að upphæð 22,4 milljónir evra. Hlutur Íslands í verkefninu er um 3 milljónir evra.

Íslendingar hafa nú um allnokkurt skeið verið virkir þátttakendur í varnaræfingum bandalagsins og fengið þannig góða þjálfun. Kafbátaleitaræfingin Dynamic Mongoose fór fram í lögsögu Íslands í júní 2017 og nú er í undirbúningi þátttaka í varnaræfingunni Trident Juncture haustið 2018. Auk þessa tekur Ísland árlega þátt í Northern Challenge æfingunni en markmið hennar er að æfa sprengjueyðingu og viðbrögð við hryðjuverkum. Loftrýmisgæsla NATO hér við land er með óbreyttu sniði og er liður í því að gæta að nyrðri mörkum bandalagsins. Efnt hefur verið til aukins samráðs við ýmis bandalagsríki og samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum hefur farið vaxandi á liðnum árum. Tekur Ísland m.a. þátt í borgaralegum hluta norræna varnarsamstarfsins. Undir lok árs 2017 gerðist Ísland aðili að norrænu samkomulagi sem auðveldar komu og brottför óvopnaðra herflugvéla vegna sameiginlegra æfinga eða aðgerða.

Áhersla hefur undanfarið ár verið lögð á virka þátttöku í afvopnunarmálum. Ísland og Írland gegna formennsku saman í Eftirlitskerfinu með flugskeytatækni 2017–2018 en samstarfið snýst um að takmarka útbreiðslu á eldflaugatækni fyrir burðarkerfi vopna, þar með talið gereyðingarvopna. Næsta haust verður Ísland gestgjafi fyrir ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins um afvopnun og gereyðingarvopn.

Góður skriður er nú kominn á störf borgaralegra sérfræðinga á vegum Íslensku friðargæslunnar innan ramma NATO. Sérfræðingar hafa starfað í Afganistan, í Georgíu og Eistlandi. Þar að auki hefur verið gerð úttekt á þjálfunarverkefni fyrir sprengjueyðingarsérfræðinga í Írak og stefnt er að því að fulltrúar sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar taki frekari þátt í því. Á vegum Íslensku friðargæslunnar fóru árið 2017 sex einstaklingar í kosningaeftirlit ÖSE í Armeníu, Albaníu og Georgíu.

Virðulegi forseti. Ég vil víkja sérstaklega að málefnum norðurslóða sem skipta okkur Íslendinga sífellt meira máli. Enn er tækifæri til að koma málum á norðurslóðum í góðan farveg, þannig að þar verði sjálfbær þróun í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en ekki stjórnleysi. Örar breytingar í umhverfinu á norðurslóðum geta haft mikil áhrif á lífríkið og líf og afkomu fólks um allan heim. Ríkjum á norðurslóðum, einkanlega aðildarríkjum Norðurskautsráðsins, hefur því verið lögð mikil ábyrgð á herðar sem þau þurfa að standa skil á gagnvart komandi kynslóðum.

Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Ísland fer með formennsku í ráðinu 2019–2021. Mikilvægt er að vel takist til í þessu formennskuhlutverki og Ísland sýni þar forystu, fagmennsku og framsýni. Formennskan veitir Íslendingum tækifæri til að stuðla að því að áherslur á sjálfbæra þróun, sjálfbær samfélög og vinnu gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum fái hljómgrunn meðal ríkja og samstarfsaðila ráðsins. Í því samhengi er brýnt að beina sjónum að hafinu, orkumálum og stöðu frumbyggja.

Auðveldari siglingar um Norðurhöf hafa vakið áhuga mikilla siglingaþjóða, og væntingar eru uppi um auðveldari aðgang að náttúrauðlindum. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. lögð áhersla á sérstöðu Íslands sem norðurskautsríkis þar sem stór hluti efnahagslögsögunnar er innan norðurslóða. Er þar áréttað að auknum siglingum og annarri starfsemi fylgi tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Þá er þar lögð áhersla á grannríkjasamstarf við Færeyjar og Grænland og vestnorrænt samstarf.

Í utanríkisráðuneytinu er nú að taka á sig mynd samræming vegna formennsku Íslands í Norðurlandasamstarfinu 2019 og Norðurskautsráðinu 2019–2021. Þar verður m.a. hlúð að vísindasamstarfi á norðurslóðum og starfi skrifstofa vinnuhópa um verndun lífríkis annars vegar og hins vegar um málefni hafsins sem eru staðsettar á Akureyri, auk þess sem styrkt verður starf að leit og björgun á svæðinu og framgangi jafnréttissjónarmiða.

Lykilatriði í utanríkisstefnu Íslands er að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins í anda hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og tengdra samninga. Á þetta einnig við um hafsvæðið í Norður-Íshafi. Í lok árs 2017 náðist tímamótasamkomulag tíu ríkja um stjórn fiskveiða í Norður-Íshafi utan lögsögu ríkja, en viðræður höfðu staðið yfir frá því í desember 2015 og er gert ráð fyrir formlegri undirritun bindandi samnings um mitt ár 2018. Þetta er mikill áfangi og sérstakt fagnaðarefni. Samningurinn um stjórn fiskveiða í Norður-Íshafi nær til úthafsins og felur í sér í stuttu máli að aðilar hans munu skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærum fiskveiðum. Með aðild Íslands að samningnum verður í framtíðinni tryggð aðkoma Íslands að ákvarðanatöku og rannsóknasamstarfi á þessu mikilvæga hafsvæði.

Þátttakan í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið hefur um langt skeið verið afar umfangsmikil í starfi utanríkisþjónustunnar. Því til viðbótar hefur þurft að gera mikið átak til að tryggja hagsmuni Íslands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þar með úr EES-samstarfinu. Ljóst er að íslensk stjórnsýsla og löggjafarvald hafa á undanförnum árum tekist á við umtalsverðan vanda við framkvæmd EES-samningsins. Upptaka og innleiðing EES-gerða hefur dregist aftur úr og svigrúm til að hafa áhrif á slíkar gerðir á mótunarstigi þrengst.

Forgangslisti ríkisstjórnarinnar fyrir hagsmunagæslu í EES-samstarfinu hefur verið endurskoðaður fyrir árið 2018 og þar eru skilgreind þau hagsmunamál Íslands sem brýnust eru meðal þeirra málefna sem eru í lagasetningarferli innan ESB. Í utanríkisráðuneytinu er unnið að greiningu á því hvernig Ísland kemur sjónarmiðum sínum að við mótun löggjafar innan ESB og fylgist með umfjöllun um málefni sem varða íslenska hagsmuni. Lykillinn að árangursríkri hagsmunagæslu við mótun löggjafar innan Evrópska efnahagssvæðisins er að koma sjónarmiðum Íslands að snemma í ferlinu. Mikils átaks er þörf í þessum efnum.

Í því sambandi er nauðsynlegt að nýta þau tækifæri sem Ísland hefur samkvæmt EES-samningnum til að hafa áhrif á mótun nýrra EES-reglna. Til boða stendur að taka átt í sérfræðingahópum sem framkvæmdastjórn ESB hefur samráð við um mótun löggjafar.

Ég vil beita mér fyrir auknu upplýsingastreymi til Alþingis og sérfræðinga í stjórnsýslunni og hagsmunaaðila um hvaða Evrópulöggjöf sé í farvatninu. Nýi EES-gagnagrunnurinn gefur tækifæri til aukins samráðs en um 250 sérfræðingar innan stjórnsýslunnar hafa nú aðgang að gagnagrunninum og geta nýtt hann til að vinna sameiginlega greiningarvinnu á stefnumótandi skjölum um mótun löggjafar í ESB inni í grunninum. Einnig gefur grunnurinn heildaryfirsýn yfir ferli EES-gerða allt frá mótunarstigi til upptöku í EES-samninginn, innleiðingar í íslenska löggjöf og hugsanlegrar málsmeðferðar sem þeim tengjast hjá Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Stefnt er að því að gera upplýsingar úr gagnagrunninum aðgengilegar Alþingi, hagsmunaaðilum og almenningi til að auka aðkomu þeirra að EES-málum.

Virðulegi forseti. Heimurinn er að breytast hratt, miklu hraðar en flestir vita. Við lifum þá tíma að kínverska millistéttin er orðin fjölmennari en íbúar Bandaríkjanna og Kanada samanlagt, nýjar siglingaleiðir kunna að opnast fyrr en varir sem gerbreyta munu vöruflutningum á heimsvísu og þjónustuvistun á sér engin landfræðileg takmörk lengur. Það eru mikil tækifæri til staðar en þau eru ekki sjálfgefin, um þau verður keppt. Hvort við Íslendingar náum árangri í þeirri keppni er undir okkur sjálfum komið. Ég legg mikla áherslu á að utanríkisráðuneytið sinni viðskiptaþjónustu og aðstoði fyrirtæki í markaðsleit, hvort sem er á hefðbundnum mörkuðum eða nýmörkuðum. Ætlunin er að styrkja sendiráðin í Asíu með fleiri viðskiptafulltrúum auk þess sem skipaðir verða nýir kjörræðismenn í helstu borgum. Sendiráð Íslands búa yfir staðarþekkingu og tengslaneti og veita fyrirtækjum fjölbreytta þjónustu. Áhersla er nú ekki síst á að efla þjónustu við nýsköpunarfyrirtæki í hátækniiðnaði og skapandi greinar. Verið er að skoða þann möguleika að opna viðskiptaskrifstofur í Austur-Asíu og á hátæknisvæðinu í Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna.

Ég vil að endingu víkja að framlagi okkar Íslendinga til þróunarmála. Tæplega helmingur af fjármögnun til utanríkisþjónustunnar rennur til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana, tæplega 7 milljarðar. Framlög hins opinbera eru ekki eina leiðin til að fjármagna þróunarsamvinnu, virkja þarf atvinnulíf til betri þátttöku í þróunarstarfi í samræmi við ákall alþjóðasamfélagsins og hvetja til fjárfestinga og viðskipta. Þetta eru skilaboðin í niðurstöðum alþjóðlegrar ráðstefnu um fjármögnun þróunar í Addis Ababa árið 2015 og hvað Ísland varðar í samráði við nýlega jafningjarýni þróunarnefndar OECD. Nú er unnið að því að gera íslenskum sérfræðingum (Forseti hringir.) og sérhæfðum fyrirtækjum, t.d. í jarðvarma og sjávarútvegi, betur kleift að nota þekkingu sína í þágu fátækra þjóða, ekki síst fyrir atbeina Alþjóðabankans og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar. Er mikils vænst af nýrri deild svæðasamstarfs og atvinnulífs innan þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins í þeim efnum.