148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega og málefnalega ræðu. Ég mun eðli málsins samkvæmt ekki geta komið inn á allt það sem hv. þingmaður vísaði hérna til.

Ég vil samt sem áður vekja athygli á varðandi þróunarsamvinnuna að við erum að auka framlögin núna á milli ára, milli 2018 og 2023, árlega um 3.000 milljónir. Það er hækkun upp á yfir 50% og mér er til efs að einhver annar málaflokkur hækki jafn mikið. Sem betur fer er það nú þannig að fátækum fækkar í heiminum og við sjáum mjög stórar og öflugar millistéttir koma upp en betur má ef duga skal. Við munum áfram leggja áherslu á það að hjálpa, sérstaklega mannúðaraðstoð og annað slíkt, og við þurfum að ræða það sérstaklega vegna þess að það skiptir máli hvernig við nýtum þessa miklu aukningu framlaga. Það þarf að gera það vel og við þurfum að læra þar af nágrannaþjóðum okkar.

Hv. þingmaður sagði að við værum að taka upp meiri hlutann af gerðum ESB. Hér er skýrsla sem hefur verið dreift til allra þingmanna sem heitir Gengið til góðs. Hv. þingmaður bendir réttilega á að ríki ESB eru okkar vinir og bandamenn og við eigum auðvitað að styrkja tengslin við þá og við eigum að gæta hagsmuna okkar í EES-samningnum, en það er misskilningur að við séum að taka upp meiri hlutann af gerðunum. Það kemur fram í skýrslunni að þetta eru 13,4% frá 1994, 13,4% af gerðunum. Við þurfum hins vegar að gera betur eins og hv. þingmaður vísaði til þegar kemur að því að reyna að hafa áhrif á fyrri stigum og gæta hagsmuna okkar er það varðar.

Menn deila ekki sömu sýn og hv. þingmaður á evruna í Evrópusambandinu á evrusvæðinu vegna þess að þar eru miklar áhyggjur út af veikleikum sem þar eru og það berast fréttir af því á hverjum degi hvernig menn taka á þeim þáttum. Það er líka ákveðinn misskilningur þegar hv. þingmaður talar um viðskiptastefnu ef við berum saman viðskiptastefnu Íslands og Evrópusambandsins og ég skal fara betur í það í seinna andsvarinu.