148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins að þróunarsamvinnunni. Ég ætla auðvitað ekki að gera lítið úr þeirri aukningu sem hefur orðið í krónutölum en við erum öll hér inni líka meðvituð um hvað prósentutala hefur í för með sér. Hún er þess eðlis sem hlutfall af landsframleiðslu að þar þurfum við að vera reiðubúin því að krónutalan sé á einhvern annan veg en við erum tilbúin til að ráðstafa. Ég bendi bara á þingsályktun þar sem sett eru hærri markmið og á endanum hlýtur að vera þingið sem ræður. Það er auðvitað plagsiður að þingið álykti út og suður og síðan gera stjórnvöld ekkert með það sem þingið segir.

Já, það er auðvitað mismunandi sýn í Evrópusambandinu á evruna, allt eftir því hvernig ríkjum vegnar. Ég vil bara að þegar peningastefna og gjaldmiðlastefna Íslands er ákveðin verði líka lagt mat á það hvaða kostir og gallar felast í mismunandi fyrirkomulagi. Það þarf enginn að reyna að sannfæra mig um að þessi rússíbanareið íslensku krónunnar hafi leikið almenning sérstaklega vel, hvað þá fyrirtæki í útflutningi, nýsköpunarfyrirtæki sem kannski lenda í því að við smágengisstyrkingu er allur hagnaður þeirra farinn og þau þurfa að fara að segja upp starfsfólki. Við hljótum a.m.k. að geta verið sammála um að skynsamlegt er að leggja mat á það. Það er ekki verið að gera t.d. í peningastefnunefnd sem er nú að störfum og mér finnst það bara ömurlegt. Við getum svo tekist á um rökin með og á móti þegar allt liggur á borðinu. Hvað ættum við í rauninni að óttast við að skoða hlutina? Stundum er bara afskaplega gott að gera það til þess að styrkja sína eigin sýn, hvort sem hún er með eða á móti, þannig að ég átta mig ekki á hvað er að óttast í því.