148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir ekki slæmt að ræða um aðild að Evrópusambandinu og það er reyndar eitt það skemmtilegasta sem ég geri, svo það sé bara sagt. Ég tel samt skynsamlegt að við förum yfir þær upplýsingar sem liggja fyrir.

Við gáfum út skýrslu fyrir nokkrum mánuðum sem heitir Utanríkisviðskipti Íslands og þátttaka í fríverslunarviðræðum EFTA. Hv. þingmaður nefnir það að við hefðum aðgang að betri samningum ef við færum inn í Evrópusambandið, en það er ekkert sem bendir til þess, miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Í annan stað kemur líka í ljós, af því að við erum að tala um hag almennings og fyrirtækja, í samanburði á tollaumhverfi Íslands og ESB og hinna EFTA-ríkjanna að við erum með mun meira tollfrelsi en Evrópusambandið. Við erum með nokkurn veginn sama fjölda tollskrárnúmera en við erum með 90% sem bera ekki toll meðan hlutfallið er 26% hjá Evrópusambandinu.

Það kemur líka fram í gögnum frá þeim hópum sem voru að vinna í samningaviðræðunum á sínum tíma, í aðlögunarviðræðunum, að ef við tækjum upp viðskiptastefnu ESB myndi það ekki bara þýða að þessir tollar myndu hækka á þeim vörum sem eru ekki tollar á núna, heldur þyrftu menn að setja upp 15–20 ný tollkerfi sem kosta um 3,8 milljarða og menn þyrftu að fjölga tollvörðum eða starfsmönnum tollsins um nokkur hundruð. Það myndi hafa mjög neikvæð áhrif á fyrirtæki og almenning ef við tækjum upp þessa viðskiptastefnu. Það var reyndar þannig í þessum viðræðum — og þetta er allt saman tekið beint upp úr fundargerðum og þeim upplýsingum sem þarna liggja fyrir, það er ekki ég sem skrifa þessa skýrslu, þetta er bara tekið beint úr því — að menn voru að reyna að fara í sérstakar mótvægisaðgerðir til þess að koma á móts við þau neikvæðu áhrif á viðskiptaumhverfi þjóðarinnar sem myndu fylgja því að ganga inn í Evrópusambandið. Menn litu þá sérstaklega til mótvægisaðgerða út af atvinnuvegunum. Það er mjög mikilvægt að slíkar upplýsingar liggi fyrir og að allir séu meðvitaðir um þær þegar við tökum þessa umræðu.