148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[13:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þegar við tökum þessa umræðu. Mér sýnist nú að í bæði stjórnarsáttmálanum og í þessari skýrslu sé þessi umræða út af borðinu. Ég hef svo sem ekkert um það að segja. Hér eru náttúrlega þrír flokkar í meiri hluta sem eru sammála um það, en ég tel í ljósi þess að allir þeir þrír flokkar hafa lofað því einhvern tímann að þjóðin fengi á endanum að taka ákvörðun um áframhaldandi viðræður að þetta sé með nokkrum ólíkindum.

Mig langar að heyra viðhorf ráðherra til þess hvort það væri ekki skynsamlegasta leiðin að spyrja þjóðina og þá væri því bara ýtt út af borðinu í eitt skipti fyrir öll eða við héldum áfram. Svo vil ég líka nefna aðra hluti sem tengjast í rauninni Evrópusambandinu, annað en bara viðskiptin, sem eru okkar sameiginlega lífssýn, sem eru mannúðarsjónarmið, þróunaraðstoð og hlutverk okkar í að vinna að friði í heiminum, þar sem ég tel í rauninni ófært að reyna aðra leið en mikla alþjóðlega samvinnu. Ég vil heyra hverjar hugmyndir ráðherra eru um það af því að í síkvikum heimi þar sem allt er að breytast getum við einfaldlega staðið býsna illa úti á berangri ef við eigum ekki góð samskipti við þessi lönd. Ég veit auðvitað að ráðherra hefur svo sem ekki haldið neinu öðru fram en að slíkt ætti að gera, en ég tel að það væri betra að láta á það reyna hvort hægt sé að gera það innan sambandsins en utan og spurningin … (Utanrrh.: Ég get ekki svarað því, ég kemst ekki í andsvar.) Í lokin þá, ef ráðherra svarar því: Af hverju útkljáum við þetta ekki bara í þjóðaratkvæðagreiðslu?