148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór náttúrlega yfir mjög margt en var sem betur fer svo vinalegur að segja að ég þyrfti ekki að svara öllu sem kom fram, enda er það erfitt á þessum stutta tíma. Ég ætla að reyna samt að hlaupa á sumu.

Það er alveg rétt, ekki er gert ráð fyrir neinum vexti í skýrslunni um utanríkisþjónustu í framtíðinni. Þess vegna eru m.a. þær tilfærslur sem hv. þingmaður vísaði sérstaklega til.

Hugsunin er náttúrlega sú að við vinnum betur saman, ekki bara utanríkisþjónustan heldur fleiri aðilar, stofnanir sem heyra undir utanríkisþjónustuna eins og Íslandsstofa og með atvinnulífinu sérstaklega þegar kemur að viðskiptalífinu. Reyndar erum við sömuleiðis að ýta undir það sem við höfum fengið ábendingar um frá alþjóðastofnunum, ég fór yfir það í framsöguræðu minni, að atvinnulífið komi líka í auknum mæli að þróunarmálunum. Það er í samræmi við þær ábendingar sem við höfum fengið og er skynsamlegt að gera.

Varðandi UNESCO er þetta tækifæri sem kom núna vegna þess að það er komið að okkur sem Norðurlandaþjóð að bjóða fram. Það væri þá líka ákvörðun að sleppa því tækifæri. Þetta er náttúrlega afskaplega mikilvæg stofnun sem m.a. hefur verið tengd Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Það er mjög mikilvægt að láta að okkur kveða í menningarsamstarfinu, enda höfum við margt þar fram að færa.

Heimasendiherrarnir. Það eru tvær leiðir þegar hugsað er um sendiráðin sem við vitum að eru flest mjög lítil. Það er mjög vont ef þau lenda í einhverjum stórum verkefnum sem eru mjög langt frá þeim. Það fer bæði orka og kraftur í það. Ég held að við getum unnið þetta mun skipulegar með því að vinna þetta svona heiman frá, ekki bara að sinna ákveðnum þjóðum sem er erfitt fyrir sendiráð að sinna, bæði út af fjarlægðum og vegna þess að þau hafa lítinn mannafla, heldur líka út frá þemum eins og jafnrétti og jarðvarma, tengjast t.d. þeim löndum sem hafa áhuga á að starfa með okkur að jarðvarmanum. Ég held að það sé skynsamlegt.

Ég kem aftur á eftir og bæti við ýmsu sem hv. þingmaður spurði um.