148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að reyna að koma með svör við því sem hv. þingmaður var að velta upp.

Hann fór aðeins yfir Vín. Við erum náttúrlega áfram með fastanefndina og munum sinna því, og af því að hv. þingmaður vísar til ODIHR þá höfum við væntanlega aldrei verið sterkari á þessum vettvangi en núna og erum með starfsmenn í Varsjá líka.

Varðandi EES vil ég vekja athygli hv. þingmanns á að það er búið að senda þingmönnum skýrsluna Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins. Þar er farið yfir aukninguna og kostnaðinn við þessa auknu hagsmunagæslu. Aukningin er 243 milljónir á ári. Af því eru 162 milljónir sem eru nýir peningar eða ný útgjöld ríkissjóðs, en 81 milljón er tilfærsla hjá þeim ráðuneytum sem þurfa að færa sína fulltrúa út í Brussel. Hérna er um viðbótarkostnað að ræða.

Varðandi Brexit held ég að við séum í stórum dráttum algjörlega sammála. Þetta snýr að því að gæta að okkar hagsmunum þegar Bretar fara út. En það er svo sem ekkert leyndarmál, við reynum að hafa eins góð samskipti við Evrópusambandið og mögulegt er, en það þýðir ekki neinn ótta gagnvart þeim, heldur er þetta fyrst og fremst flókið mál og það eru margir sem að þessu koma, þess vegna höfum við haft samráð og samvinnu, ekki bara við Breta heldur sömuleiðis Evrópusambandið, EFTA-ríkin og aðra þá aðila sem við teljum mikilvægt að hafa samráð við til þess að ná árangri á þessu sviði.

Síðan er það rétt sem hv. þingmaður nefnir um viðskiptaþjónustuna. Við erum auðvitað minni, en við getum lært mjög af nágrannalöndum okkar. Hv. þingmaður nefndi Dani sérstaklega og Norðmenn og við eigum auðvitað ekki að reyna að finna upp hjólið, við eigum að læra það af þeim sem hafa gert hlutina vel. Við höfum gert margt gott í þessu. Ég held hins vegar að við getum gert mun betur og reyndar verðum við að gera það. Við þurfum að auka útflutningsverðmæti okkar um 1 milljarð á viku næstu 20 árin, þannig að við þurfum að standa okkur.