148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þetta. Það er gott að heyra að þetta komi fram í þessari skýrslu, ég held að ég fari rétt með að hún hafi komið í pósthólfið annaðhvort í gærkvöldi eða í morgun, þannig að maður á eftir að sökkva sér í hana.

Það sem ég var að nefna um Brexit-kaflann þá staldraði ég við endurmat á markmiðum. Kannski misskil ég þetta, getur vel verið, en ég hefði haldið að markmiðin væru til einhvers staðar, það væri verið að endurmeta leiðirnar að markmiðum. Maður nær markmiðunum eða þarf að breyta þeim þegar á endann er komið. Það er mjög mikilvægt að við höldum vel á spöðunum þegar kemur að Brexit að sjálfsögðu. Það eru þessar tvær eða þrjár leiðir sem er velt upp varðandi Brexit-viðræðurnar, hvort við erum í þessu tvíhliða, hvort við erum með EFTA-ríkjunum og ég man ekki alveg hvað hitt var. Það skiptir miklu máli að við gerum hlutina á okkar forsendum. Ég veit að ráðherra og utanríkisþjónustan horfir á þetta með þeim augum. Við getum ekki gert þá á forsendum EFTA. Það þarf enginn að segja mér að Norðmönnum eða öðrum detti nokkurn tímann í hug að hugsa til Íslands þegar þeir velta fyrir sér hvernig þeir nái bestum samningum við Breta. Það er ekki þannig.

Allt sem við gerum í þessu gerum við á okkar eigin forsendum með hag okkar fólks og þjóðar í huga og að sjálfsögðu þarf að tryggja þá hagsmuni. Það er margslungið verkefni að semja við Breta, það er alveg ljóst. Það er allt þetta fólk sem býr í Bretlandi, sem er þar í námi, í vinnu, á þar fyrirtæki og eignir. Það eru viðskipti, ferðamenn, tollar. Þetta er gríðarlega stórt mál. Við gerum okkur alveg grein fyrir því. Þar af leiðandi er eðlilegt að ráðherra fengi, ég segi nú ekki opna fjárheimild, en hann þyrfti að fá eins mikla peninga og hann þarf í það verkefni.