148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góða umræðu um utanríkismál í dag. Sú skýrsla sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram er afar yfirgripsmikil og því af mörgu að taka. Ég ákvað að taka fyrir tiltekna kafla, þ.e. um norræn málefni, þar sem ég gegni nú stöðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og þykir það við hæfi og einnig málefni Rússlands sem fjallað er um í kaflanum. Þau málefni eru einmitt mjög ofarlega á blaði í samtali á vettvangi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjanna.

Norrænt samstarf er alls ekki nógu oft rætt í þessum sal. Það er kannski eilítið sérkennilegt þar sem norrænt samstarf er og hefur lengi verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Við ræddum reyndar í gær eilítið, í umræðunni um fjármálaáætlun, um aukið samstarf á vettvangi varnar- og öryggismála. Þá ræddum við sérstaklega um netöryggismál en á síðasta vorþingi Norðurlandaráðs á Akureyri var samþykkt tillaga um aukið samstarf varðandi netöryggi. Þetta er algjörlega, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á áðan, málefni sem verður sífellt meira aðkallandi vegna þess að þótt við séum eyja erum við í raun ekki eyja lengur og þurfum að huga að þessum málefnum, hvernig við tryggjum öryggi okkar. Við erum smátt ríki og þess vegna er norrænt samstarf okkur afar mikilvægt.

En ég ætla að fara aðeins yfir það hvað Norðurlandaráð er og norrænt samstarf. Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs. Það var stofnað árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess og í Íslandsdeild Norðurlandaráðs eiga sæti sjö þingmenn úr sex þingflokkum.

Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um samnorræn málefni. Auk þess heldur Norðurlandaráð nefndafundi þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum samnorrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Til dæmis lagði Íslandsdeild Norðurlandaráðs fram tillögu á síðasta þingi, á Akureyri, um að beina því til Norrænu ráðherranefndarinnar að auka samstarf á sviði rannsókna varðandi súrnun sjávar og áhrif þess á vistkerfi og afleiðingar. Þetta er akkúrat í takt við okkar áherslu á hafið og samnorræna hagsmuni varðandi þá mikilvægu auðlind.

Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem er beint til Norrænu ráðherranefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Undirstaða starfsemi Norðurlandaráðs er Helsingfors-samningurinn frá 1962. Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 og er samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Sigurður Ingi Jóhannsson gegnir nú stöðu samstarfsráðherra Norðurlanda fyrir Íslands hönd. Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar starfa tíu nefndir fagráðherra sem hittast reglulega og ræða sameiginleg málefni.

Formlegir samningar mynda ekki ramma utan um samstarf norrænu utanríkisráðherranna líkt og við á um faglegt samstarf norrænu ríkisstjórnanna sem fer eftir þeim ákvæðum sem Helsinki-sáttmálinn setur því og á sér stað á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Í þessum skilningi er samstarf utanríkisráðherranna óformlegt. Norrænt samstarf þróunar- og varnarmálaráðherranna telst einnig vera óformlegt.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda mjög reglulega og sendiskrifstofur Íslands eru í góðum samskiptum við norræna kollega heima og að heiman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem og annarra alþjóðastofnana. Á síðustu árum hafa Norðurlöndin unnið að því að efla enn frekar samstarf sitt á sviði utanríkis- og öryggismála með hliðsjón af tillögum Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs, sem fram koma í skýrslu hans til ráðherranna árið 2009. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna staðfestu á fundi sínum í Helsinki í apríl 2011 formlega norræna samstöðuyfirlýsingu í anda tillagna Stoltenbergs.

Að auki má geta þess að Norðurlöndin starfrækja sendiráð sín á sameiginlegu sendiráðssvæði í Berlín. Upp hafa komið hugmyndir um að gera slíkt hið sama í öðrum löndum í framtíðinni, þ.e. að vera með sendiráðin svona sameiginlega. Það hefur gefið mjög góða raun.

En hvaða þýðingu hefur norræn samvinna fyrir Ísland?

Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland afar miklu máli. Ísland er auðvitað smáríki og því veitir norrænt samstarf okkur ákveðna fótfestu á alþjóðavettvangi. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi. Þannig tala Norðurlöndin oft einum rómi, t.d. þegar kemur að öryggismálum, umhverfis- og loftslagsmálum og jafnréttismálum. Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grundvallargildi, eins og mikilvægi mannréttinda, lýðræðis- og réttarríkisins og friðsamlegra lausna deilumála. Á þessum sviðum eru Norðurlandaþjóðir í fararbroddi á heimsvísu og leggja áherslu á að deila þekkingu sinni til að efla samfélög í öðrum heimshlutum.

Íslensk fyrirtæki eiga í umtalsverðum viðskiptum með vörur og þjónustu við hin Norðurlöndin og því má segja að Norðurlönd séu Íslandi afar mikilvægt markaðssvæði. Norræn samvinna skiptir Íslendinga ekki síst efnahagslega miklu máli. Samkvæmt Hagstofu Íslands nam verðmæti íslensks útflutnings til Norðurlanda árið 2017, þ.e. janúar til nóvember, 40,2 milljörðum kr., þ.e. um 9% af heildarútflutningi. Þar af var útflutningur til Noregs rúmur helmingur, 5,3%.

Verðmæti innflutnings frá Norðurlöndum var mun meira en útflutnings á árinu 2017, á sama tímabili, um 130 milljarðar kr., 21% af heildarinnflutningi til Íslands. Þar af var innflutningur frá Noregi 9,5%, Danmörku 6,1% og Svíþjóð 4,1%.

Hæstv. forseti. Pólitísk fótfesta, öflug utanríkisviðskipti og samstarf um menningu, menntun, vísindi og þróun eru kostir norræns samstarfs í hnotskurn og styrkurinn er hversu ótrúlega margir taka þátt í samvinnunni á hverjum degi. Við erum án efa sterkari saman.

Stærsta verkefnið fram undan í norrænu samstarfi er formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni sem hefst um næstu áramót. Íslensk stjórnvöld munu í haust leggja fram formennskuáætlun fyrir árið 2019 þar sem fram koma þau málefni sem Ísland vill leggja áherslu á og þau formennskuverkefni sem hleypt verður af stokkunum.

Formennskuáætlun Íslands 2019 verður kynnt af forsætisráðherra og lögð fram til samþykktar á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í lok október nk. Til formennskuverkefna Íslands verður varið 15 milljónum danskra króna á ári í þrjú ár, samtals rúmlega 750 millj. kr. miðað við núverandi gengi.

Hagsmunir og áherslur Íslands, Norðurlandanna og vestnorræna svæðisins, að ógleymdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, mynda grunninn að formennskuáætluninni. Hún mun að auki taka mið af fyrri formennskuáætlunum til að tryggja samfellu í stefnu og verkefnum. Þá er stefnt að samlegðaráhrifum með formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem einnig hefst á næsta ári en áætlanir gera ráð fyrir að málefni hafsins verði áberandi í báðum þessum formennskum. Í ljósi örra breytinga á norðurslóðum ríður á að aðildarríki ráðsins gæti hagsmuna sinna og svæðisins í víðum skilningi með hin 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra segir m.a. á bls. 28, með leyfi forseta:

„Það er gömul saga og ný að styrkur norræns samstarfs felst í sameiginlegum gildum Norðurlandanna og svipaðri samfélagsgerð. Væringar og óvissa á alþjóðavettvangi virðast einnig hafa beint sjónum Norðurlandabúa inn á við á nýjan leik. Í nýrri könnun Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs á því hvernig almenningur lítur norrænt samstarf kemur skýrt fram að Norðurlandabúar telja samstarfið vera mikilvægt. Rúmlega 90% aðspurðra telja samstarfið mikilvægt eða afar mikilvægt, þar af 59% afar mikilvægt. Rúmlega tveir þriðju vilja aukið norrænt samstarf sem er marktækt, fleiri en þegar síðast var spurt fyrir tíu árum. Tveir þriðju telja þróun alþjóðamála hafa aukið mikilvægi norrænnar samvinnu. Almenningur telur varnar- og öryggismál brýnustu samstarfssviðin sem er breyting frá fyrri tíð.“

Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur hefur orðið áþreifanlega vör við þessa þróun á vettvangi Norðurlandaráðs, eins og fyrr sagði, og einnig á fundum í þingmannanefnd Eystrasaltssvæðisins, en þar sit ég sem fulltrúi forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Á þessum fundum má glögglega heyra hversu áhyggjufullir fulltrúar Eystrasaltslandanna eru vegna þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í Rússlandi á undanförnum misserum.

Í 5. kafla í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er ágæt umfjöllun um alþjóða- og utanríkismál og sérstakur undirkafli um Rússland. Þar kemur meðal annars fram að sögulega séð hafa samskipti Íslands og Rússlands almennt verið mjög góð og vegna landfræðilegrar legu eiga ríkin í svæðisbundnu samstarfi, meðal annars á vettvangi Norðurskautsráðsins og Eystrasaltsráðsins. Áratugalöng hefð er einnig fyrir miklum samskiptum milli Íslendinga og rússneskra aðila á sviði viðskipta og menningar.

Viðskiptahindranir vegna Úkraínudeilunnar hafa haft mikil áhrif á viðskipti við Rússland og hefur útflutningur á fiskafurðum nær þurrkast út, en það voru mest loðna, makríll og síld. Fram kemur í skýrslunni að eitt helsta forgangsverkefni sendiráðsins síðustu misseri hafi því verið að bregðast við þessari erfiðu stöðu. Á sama tíma hefur sendiráðið unnið ötullega með íslenskum fyrirtækjum á sviði útgerðar- og fiskvinnslutækni við að ná fótfestu á Rússlandsmarkaði. Það er auðvitað af hinu góða.

Herra forseti. Nýliðnir atburðir hafa haft afar neikvæð áhrif á samskipti Rússlands og Vesturlanda. Þar er ég að vísa til efnavopnaárásarinnar í enska bænum Salisbury í upphafi marsmánaðar en hún er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Í skýrslu ráðherra segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar. Norðurlöndin, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu og ýmis aðildarríki Evrópusambandsins ákváðu í kjölfarið að grípa til samstilltra aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Ríkisstjórnin ákvað, í samráði við utanríkismálanefnd, að taka þátt í þessum samstilltu aðgerðum og hefur öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verið frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri.

Sértækar og mjög afmarkaðar þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi í kjölfar átaka í Úkraínu og innlimunar á Krímskaga árið 2014 eru áfram í gildi, sem og gagnaðgerðir rússneskra stjórnvalda sem fela í sér mun víðtækara innflutningsbann á matvæli. Enda þótt hér ræði um veigamikil atriði, sem setja strik í reikninginn í samskiptum þjóðanna, hafa íslensk stjórnvöld leitast áfram við að stuðla að góðum samskiptum við Rússland, m.a. í svæðisbundnu samstarfi líkt og innan Norðurskautsráðsins.“

Eins og fyrr segir er af mörgu að taka í skýrslunni og mér finnst umræðan í dag hafa verið mjög góð. Nokkrir hafa nefnt viðbótarfjármuni sem nú eru lagðir til þróunarsamvinnu og í fjármálaáætlun kemur fram að áframhald verði þar á. Það var rætt bæði hér í gær, í umræðu um fjármálaáætlun, og einnig hafa nokkrir hv. þingmenn og hæstv. utanríkisráðherra nefnt það hér í dag. Það er að sjálfsögðu af hinu góða að við séum að bæta við í þróunarsamvinnuna þar sem þar er um mjög mikilvæg verkefni að ræða og meginhluti ræðu minnar fjallaði um norrænt samstarf og mannréttindi. Eins og ég sagði eru norræn ríki í fararbroddi á mörgum sviðum eins og mannréttindum, jafnrétti og í loftslagsmálum og á fleiri sviðum þannig að við eigum að sjálfsögðu að nýta okkar þekkingu til góðs. Þróunarsamvinna er svo sannarlega byggð upp í þeim anda. Við eigum að gera betur þar og hafa metnað til þess.

Þessi umræða verður að halda áfram. Í svari hæstv. utanríkisráðherra í gær við spurningu minni um enn frekari aukningu á framlögum til þróunarsamvinnu, þ.e. hvort hann telji að það að ná 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu eins og markmið Sameinuðu þjóðanna leggur til, sé raunhæft markmið. Í svari ráðherra kom fram að til þess að komast þangað þurfum við kannski bara að ræða þessi mál oftar. Ég tek undir með þingmönnum sem það hafa sagt, ekki bara varðandi þróunarsamvinnuna heldur um utanríkismál. Ég held að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi nefnt það hér áðan að við höfum verið í langri og krefjandi umræðu um fjármálaáætlun í nokkra daga. Í dag er föstudagur og við erum hér með mjög góða skýrslu frá hæstv. utanríkisráðherra sem við eigum að ræða á þrem til fjórum klukkutímum eða svo. Mér finnst ekki góður bragur á þessu og ég vonast til þess að þegar við fáum næstu skýrslu frá hæstv. ráðherra verði okkur gefið meira svigrúm til að ræða hana. Við ættum jafnvel að taka fleiri fasta daga frá af þingfundadögum til að ræða utanríkismál, ekki síst norrænt samstarf og þróunarsamvinnu.