148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var bæði yfirgripsmikil og fróðleg. Hv. þingmaður vakti athygli á nokkru sem mér finnst mjög merkilegt, því hvað það er mikill stuðningur á bak við norrænt samstarf á Norðurlöndum og hvað það er mikill áhugi á Norðurlöndunum fyrir að efla það enn frekar. Mér finnst þetta mjög jákvæðar fréttir. Menn vilja sérstaklega aukið samstarf í varnar- og öryggismálum. Hv. þingmaður vísaði í upplifun sína af því að hafa hitt fulltrúa frá Eystrasaltsríkjunum. Þeir eru nálægt okkar, þetta eru vinir okkar, ekki bara á Norðurlöndunum heldur líka í Eystrasaltinu. Það er upplifun að heyra þeirra upplifun.

Varðandi Rússland og viðskiptin þar er auðvitað eitt af markmiðunum hjá Rússlandi með viðskiptabanni á okkur vegna sjávarútvegsins og landbúnaðarins að efla sinn eigin atvinnuveg. Það hefur skapað ákveðin tækifæri sem hafa eitthvað verið nýtt af tæknifyrirtækjum hér sem selja í slíka starfsemi, sérstaklega á vettvangi sjávarútvegs. Umræðan um Rússland er kannski ekki alveg í samræmi við stærð viðskiptanna á milli landanna. Jafnvel þó að við tækjum inn þegar við sátum einir að mörkuðunum, af því að þeir settu viðskiptabann einu ári seinna á okkur en aðra, voru viðskiptin um 22 milljarðar. Heildarviðskiptin eru núna í kringum 8 milljarða meðan Bandaríkin eru bara með um 340 og Bretar 260, ef ég man það rétt, en ég segi þessar tölur án ábyrgðar.

Ef við myndum hækka framlög til þróunaraðstoðar á einu ári upp í 0,7% er það 11 milljarða hækkun á ári. Það segir sig sjálft að það væri mjög stórt stökk í einu og ég held að það væri erfitt að koma því við svo vel færi. Stígandin er best í þessu.

Síðan er ég sammála hv. þingmanni, og það er ein af tillögunum í utanríkisþjónustu til framtíðar, um að við þurfum að ræða utanríkismál oftar í þinginu.