148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, það var heillaspor 2016 að sameina Þróunarsamvinnustofnun inn í utanríkisráðuneytið. Það mætti örugglega gera víðar í Stjórnarráðinu, að sameina stofnanir inn í ráðuneytin.

Hv. þingmaður fór aftur yfir mikilvægi Norðurlandasamstarfsins og nefndi m.a. viðskiptamálin sem við skyldum alls ekki vanmeta. Við höfum áhuga á því að læra af Norðurlöndunum um öryggis- og varnarmálin þegar kemur að þróunarmálum. Þau eru búin að standa í þessu með mun öflugri þróunaraðstoð en við og gert það mun lengur. Ég held að það sé mikilvægt að við séum ekkert að finna upp hjólið heldur lærum hvernig þau hafa gert það. Hafið er augljóst, í norðurslóðamálinu sem er risamál er líka mjög mikilvægt fyrir okkur að starfa með þeim.

Ég er mjög ánægður með það starf sem hv. þingmenn hafa sinnt á vettvangi Norðurlandasamstarfsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt, auðvitað ekki bara varðandi Norðurlandasamstarfið, heldur alþjóðlegt samstarf almennt. Þarna er þetta virkast ef kannski er undanskilið EFTA- og EES-samstarfið og það er að mínu áliti algjörlega til fyrirmyndar.

Ég á voða erfitt með að vera ósammála hv. þingmanni um nokkurn skapaðan hlut og engar spurningar komu þannig að ég ætla ekki að bæta frekar í.