148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:39]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Norðurslóðir og málefni þeirra eru akkúrat meðal þess sem er farið ágætlega yfir í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Þar eru áherslur sem við þurfum að gæta þess að halda til haga. Þar kemur að mikilvægi samstarfs okkar við norrænu þjóðirnar, sem og Rússa og Eystrasaltsríkin. Það er svo mikilvægt að halda góðu sambandi við Rússa vegna þess að þarna eru sameiginlegir hagsmunir og verða jafnvel enn meiri til lengri tíma litið.

Mig langar að nefna vestnorræna samstarfið sem er svo sem hluti af norrænu samstarfi, en við höfum eflt það upp á síðkastið, þ.e. samstarf okkar Íslendinga við Grænlendinga, vinaþjóðir okkar Grænlendinga og Færeyinga. — Hér gengur einmitt formaður Vestnorræna ráðsins í salinn. Nei, ekki formaður, (BHar: Fyrrverandi.) fyrrverandi formaður, það er rétt, þannig að ég geri ráð fyrir að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir komi betur inn á málefni Vestnorræna ráðsins á eftir í sinni ræðu. Það er samstarf sem við þurfum að halda áfram að efla. Þar eru tækifæri og þar getum við einmitt bæði lært af okkar vinaþjóðum og einnig deilt þekkingu og reynslu og gert góða hluti saman.