148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu langa. Mig langaði að nefna eitt eða tvö atriði. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem nefndi áðan að tímasetningin á þessari umræðu er óþægileg. Það er eitthvað til að læra af. Ég ætla svo sem ekki að kvarta mikið undan því, enda hittist oft bara þannig á, en aðstæðurnar eru þannig að það er kannski ekki besti tíminn til að sökkva sér algerlega ofan í þessa skýrslu.

Að því sögðu er þetta ekki mál hér til samþykktar eða eitthvað því um líkt. Þetta er ekki eitthvað sem er aðkallandi heldur frekar mál sem við þurfum að ræða til að varpa fram sjónarmiðum og fá fram umræðu, sem er auðvitað mikilvægt.

Hvað varðar þróunarsamvinnuna ætla ég að láta duga að segja að mér finnst að við eigum að vera miklu metnaðarfyllri í því að ná því markmiði að 0,7% af þjóðartekjum fari til þróunarsamvinnu. Ég ætla hins vegar að láta það duga vegna þess að aðrir hafa nú þegar talað nóg um það. Það er allt komið fram. Fólk er misjafnlega metnaðarfullt hvað það varðar. Það verður bara að hafa það.

Sömuleiðis verður að minna á að sennilega er eitt stærsta öryggisvandamál okkar, og öryggismálin eru það sem ég ætla að fara aðeins út í, loftslagsmál. Sömuleiðis er það umræða sem ég vona að okkur takist að taka upp á aðeins hnitmiðaðri hátt í framtíðinni.

Það sem mig langar helst til að tala um og ég hygg að ég hafi fram að færa sem aðrir hv. þingmenn hafa ekki þegar rætt eða munu taka fram við umræðuna er öryggismál, sér í lagi upplýsingaöryggismál sem eru mér mjög hugleikin og ég hef mjög miklar áhyggjur af. Nú hljóma ég kannski svolítið eins og biluð plata og bendi mikið til á sambærilega og svipaða hluti og ég hef nefnt á þarsíðasta kjörtímabili þegar við vorum með skýrslu utanríkisráðherra til umræðu því að eins ágæt og skýrslan sjálf er er annar vinkill á þessum málum sem snýr ekki beinlínis að hæstv. utanríkisráðherra eða hans starfi þótt bróðurparturinn og meginábyrgðin af starfinu liggi þar heldur að almenningi, fyrirtækjum og stofnunum í samfélaginu.

Upplýsingaöryggi er ekki eitthvað sem við getum einfaldlega látið í hendurnar á einhverri stofnun og ætlast svo til að hún passi einfaldlega upp á þau mál. Ástæðan er sú að upplýsingatæknin umlykur alla okkar innviði. Það eru ekki bara einhver ytri landamæri sem við þurfum að verja þar og enginn fastur her eða herir, erlendis vitaskuld og af og til hér á Íslandi, sem við getum stólað á að fari og berjist fyrir okkur. Upplýsingaöryggi er þess eðlis að það snýr að okkar daglega lífi sem einstaklinga, fyrirtækja, stofnana. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það verði meiri meðvitund um upplýsingaöryggi meðal almennings og téðra stofnana í framtíðinni. Staðan í dag er afskaplega vond. Hefur verið verri, hún er sennilega skárri núna en hún hefur nokkru sinni verið, en hún er samt bölvanlega vond.

Fólk segir sér að það hafi ekkert að fela, sé ekki að gera neitt svo merkilegt að það þurfi að passa sig sérstaklega. En það er alger misskilningur. Í fyrsta lagi hefur fólk víst hluti að fela. Í öðru lagi er hægt að nota stjórn yfir tölvum og tækjum fólks sem vopn, ekki bara til að hnýsast í einkalíf fólks heldur er hægt að misnota það. Það er hægt að misnota saklausar upplýsingar eins og við þekkjum, t.d. hvernig þær eru notaðar í kosningabaráttu vestan hafs. Það voru í sjálfu sér ekki notaðar viðkvæmar upplýsingar, þetta voru algerlega saklausar upplýsingar, bara hvað fólki líkaði vel við og hvaða skoðanir fólk hafði. Ekkert sem fólk var að reyna að passa og hafði ekki ástæðu til að passa. Það er samt hægt að misnota þannig upplýsingar.

Það þarf vitundarvakningu og aukna meðvitund um mikilvægi upplýsingaöryggis á mjög víðum skala. Langt út fyrir hæstv. utanríkisráðuneyti eða stjórnvöld. Það er nefnilega þannig, enn og aftur, nú endurtek ég ræðu sem ég flutti 2014 og síðan aftur 2015, að upplýsingaöryggi hefur aldrei verið verra en núna. Upplýsingaöryggi er algerlega í klessu, ég kann ekki að orða það öðruvísi. Öryggisgallarnir sem hafa verið að finnast eru í meira eða minna öllum tölvum í heiminum, Mac, Linux, PC, Windows, skiptir ekki máli. Tölvutæknin eins og hún hefur verið hönnuð síðastliðna áratugi er í grundvallaratriðum gölluð og öryggisglufurnar eru svo gott sem alls staðar. Það er erfitt að reyna að hrella fólk nú til dags því að það er eiginlega orðið vant þessari orðræðu núna og einhvern veginn tekst okkur samt sem áður að starfa og einhvern veginn gengur þetta samfélag þrátt fyrir þetta. Helsti skaðinn sem við verðum vör við er óværur eins og svokölluð „botnet“ eða gíslatökuveirur og þess háttar, einstaka sinnum leka einhver trúnaðargögn eða persónugögn og af og til eru einhverjar stofnanir hakkaðar og eitthvað svoleiðis. En það er allt minni háttar skaði í samhengi við möguleikana sem eru til staðar.

Það er vandinn sem ég hef áhyggjur af sem hinn vestræni heimur í heild sinni áttar sig ekki á, vissulega ekki almenningur þó að sennilega átti hernaðaryfirvöld sig á því. Það er þetta: Við vitum hvernig stríð líta út, við getum flett í sögubókum og séð myndir og lesið texta. Við eigum þó nokkuð ríka sögu af stríðsátökum í mannkynssögunni, því miður. Reynslan hefur byggst upp og við vitum nokkurn veginn hvað bendir til þess að stríðsátök byrji og hvernig á að berjast í þeim og hvernig ekki. Við erum komin með lög sem er auðvitað allur gangur á hvort stríðsherrar fara eftir o.s.frv. En við vitum ekki hvernig upplýsingastríð myndi líta út. Við getum giskað á það og meira að segja frekar vel, lesið okkur til og hlustað á sérfræðinga segja frá alls konar möguleikum. En við höfum aldrei í raun og veru gengið í gegnum það, við vitum ekki hver birtingarmynd þess yrði og afleiðingarnar sér í lagi eru óskrifað blað. Þess vegna hef ég svo miklar áhyggjur af þessu. Þótt maður vilji ekki tala upphátt um möguleikana á hefðbundnu stríði nær okkur en nú þegar er, það er nú þegar of nálægt, þurfum við samt að geta hugsað það til enda. Tíminn líður, mannkynið heldur áfram að vera mannkyn. Hlutirnir halda áfram að flækjast. Það er alltaf þessi möguleiki.

Ég held að það sé hollt að velta fyrir sér hvernig opið upplýsingastríð myndi líta út. Það myndi ekki líta þannig út að einstaka persónugögnum yrði lekið eða öllum. Það myndi sennilega líta út, með fyrirvara um að fólk ætti að hlusta á meiri sérfræðinga en mig í þessum efnum, þannig að einhverjir innviðir hryndu. Segjum sem svo að skattrannsóknarstjóri og lögreglan á Íslandi gætu ekki lengur átt samskipti nema með hefðbundnum símtölum. Hvaða verkferlar eru þá farnir út um gluggann? Segjum sem svo að rafkerfið fari eða eitthvað því um líkt. Það er alltaf hætta á að það sé hægt að skaða innviði okkar af aðilum sem eru jafnvel hinum megin á plánetunni á einhvern hátt sem við erum ekki vön að hugsa um. Við erum ekki vön að hugsa svona, við hugsum alltaf um landfræðilegan hernað, eðlilega, það er það eina sem við höfum raunverulega reynslu af.

Svo er annað sem mig langar að nefna sem mér finnst hollt að velta fyrir sér: Hvernig myndu vinaþjóðir okkar og bandamenn bregðist við ef kæmi til einhvers konar upplýsingahernaðar á stórum skala gagnvart Vesturlöndum í heild sinni? Við vitum alveg hvernig 5. gr. NATO-sáttmálans myndi virka, við vitum svo sem ekki nákvæmlega hvað gerist en getum gefið okkur einhverjar aðstæður, getum gefið okkur að ef þetta gerist þá svörum við svona eða ef eitthvað gerist í landfræðilegum skilningi erum við á kunnuglegum stað út frá hernaðarsögunni.

En segjum sem svo að það yrði upplýsingaárás á stórum skala gagnvart Vesturlöndum og hún myndi skaða okkar innviði mjög mikið: Hvernig myndu Bandaríkin bregðast við? Norðmenn, Danir, Bretar? Ég geri ráð fyrir að þeir myndu byrja á að fríka pínu út og gera sitt besta til að finna út úr því hvað væri í gangi og reyna að laga það. En í hvaða röð? Hvernig myndu þeir forgangsraða? Ég held að eina leiðin fyrir Ísland, sem er svo agnarsmátt land með nákvæmlega enga burði til að takast á við svona ógnir eitt og sér, verði að vera í afskaplega nánu samstarfi við aðrar þjóðir upp á slík atriði að gera. Þá, eins og ég hef reyndar tekið fram áður í ræðum mínum, tel ég mikilvægt að við höfum í huga að landfræðilegir, hernaðarlegir hagsmunir, heildarhernaðarlegir hagsmunir, og upplýsingahernaðarlegir hagsmunir eru ekki endilega þeir sömu. Þeir eru í meginatriðum þeim sömu. Það er t.d. andstætt bandarískum hagsmunum að upplýsingaöryggi á Íslandi sé lélegt, það segir sig sjálft. En í tilfellum þar sem við erum komin í einhvers konar upplýsingahernað sem við höfum aldrei séð áður og skiljum ekki alveg þá þurfum við að vita til hverra við ætlum að leita og hvaða þjóðir það eru sem hafa burði í þessu efni og pólitískan vilja auðvitað, sem er ekki alveg sjálfgefið vestan hafs eins og er, því miður, meðan við erum með þennan Trump-gaur í forsetaembættinu. Maður veit aldrei hvern fjárann honum dettur í hug að fullyrða á Twitter næst og taka til baka eða hvað sem hann er að gera hverju sinni, hvernig sem honum líður hverju sinni. Við þurfum að vita nákvæmlega í hvaða heildarsamhengi upplýsingahagsmunir okkar eru.

Mér dettur ekkert betra í hug en Norðurlöndin; Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur. Þetta eru sambærileg ríki að mjög mörgu leyti. Einfalt dæmi sem er náttúrlega bara smáatriði, til þess að nefna það, er hversu mikið við notum kennitölur en líka hvernig við högum innviðum okkar. Við erum líkleg til að nota upplýsingatæknina á tiltölulega sambærilegan hátt. Árásir á slíka upplýsingainnviði myndu sennilega vera líkari á Íslandi og á Norðurlöndum en t.d. Íslandi og í Mexíkó eða í Bandaríkjunum eða Kanada þar sem öðruvísi er farið með upplýsingar, þar sem afleiðingar tiltekinna leka eru aðrar og þar sem kerfin sem menn nota eru misjöfn. Þetta er allt eitthvað sem þarf að pæla í.

Ekkert af þessu felur í sjálfu sér miklar ábendingar til hæstv. utanríkisráðherra heldur miklu frekar til þingsins og almennings um að þessi hluti er óskrifað blað. Ég hef engar áhyggjur af því að hæstv. ráðherra, hvort sem það er utanríkisráðherra eða einhver annar, muni gera neitt annað en sitt besta. En markmiðið hér er kannski aðeins að hræra í pottinum og fá fram umræðu um þetta til þess að við siglum ekki inn í þessa nýju tíma þannig að það séu einungis hernaðaryfirvöld og yfirvöld sem séu með puttann á púlsinum og viti hvað sé í gangi.

Þetta vildi ég ræða aðeins. Ég færi svo sem ekki fram neinar sérstakar lausnir enda þyrfti ég aðeins nánara samtal við hæstv. utanríkisráðherra og stofnanir þess ágæta embættis til að gera það. En þetta er mikilvægt, þetta er vanmetið. Og ef menn telja að þetta sé ekki yfirvofandi er það bara vegna þess að við höfum staðið okkur svo vel í að telja okkur trú um að svo sé ekki.