148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var á svipuðum nótum og andsvarið við mig fyrr í dag, nema hvað þetta var eðli máls samkvæmt mun ítarlegra. Hv. þingmaður vísaði til þess og benti réttilega á að netöryggi væri ekki allt saman á mínu málefnasviði þótt það segi sig sjálft að málið er alþjóðlegt og snýr að öryggis- og varnarmálum okkar og sýnir kannski bara ágætlega hvað heimurinn hefur breyst og breytist hratt. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af þessum málum almennt og hef svo sem ekki neinu við það að bæta sem ég sagði í morgun, ég hvet hv. þingmann áfram til dáða. Hann nefndi réttilega að þetta er eitt af því sem ríkisstjórn og ráðherrar, og það eru ýmsir sem að þessu koma, eru meðvitaðir um. En við þurfum svo sannarlega að halda vöku okkar. Ekki mun þetta mál fara niður meðan hv. þingmaður er hér á þingi, svo mikið er víst.