148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki líklegt að ég sleppi óbitinn af þessu máli. Ég verð þá samt að segja, áheyrendum kannski aðeins til huggunar, að stjórnvöld eru að bregðast við. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að meiri deilur séu milli ríkja núna, milli vesturs og austurs, og mikið til af því að margar af þeim stofnunum sem eru fremst komnar í öryggismálum eru að ranka svolítið við sér, fá lítillega aukið vægi. Þetta er eins og svo margt, það er ekki svo slæmt ef það gerist nógu hægt. Það er í raun og veru verst ef eitthvað gerist ofboðslega skyndilega. Á meðan okkur tekst að hafa augun á boltanum er í sjálfu sér alveg mögulegt að engin stórslys verði úr þessu. Þetta er eins og með nýja tækni og stórar breytingar, þær fela oft í sér mjög miklar ógnir, áhyggjur sem líka verður að nefna. Ég er nú ekki mikið fyrir að vitna í Rumsfeld en mér fannst samt eitt gott sem hann sagði einhvern tíma um „unknown unknowns“, eins og það er kallað á ensku, óþekktar óþekktar stærðir. Hluti sem við vitum ekki að við vitum ekki. Og það er mikið af þeim í þessum geira, upplýsingaöryggi. Mikið af hlutum sem við vitum ekki að við vitum ekki. Fullt af hlutum sem við vitum að við vitum ekki. Ég ætla ekki að fara að endurtaka ræðu Rumsfelds í heild sinni. En mér finnst mikilvægt að hafa í huga að stór hluti af þessu er í raun og veru bara það að við séum meðvituð um hvað við erum að eiga við. Mér sýnist það alla vega vera að skána, en helstu áhyggjur mínar snúa kannski að því að þetta er eins og svo margt annað, tæknin þróast svo miklu hraðar en menningin, og síðan stjórnmálin langhægast en kannski í þeim anga stjórnmálanna sem er hvað mestur hraði í er þegar fólk hefur raunverulegar áhyggjur af öryggismálum, þá bregst kannski fólk hraðar við. Ég vona það í þessu tilfelli. En það er líka í samræmi við það sem ég sé bæði í svörum hæstv. utanríkisráðherra og reyndar þegar þessi mál eru alvarlega rædd almennt.