148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki kominn hingað upp af því að ég sé ósammála hv. þingmanni en það er þó eitt sem er hin hliðin á þeim peningi þegar kemur að þessari þróun, þetta eru ekki bara ógnanir. Þetta eru svo sannarlega líka tækifæri. Það er hinn undirliggjandi tónn í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar. Ein af ástæðunum fyrir því að við erum að hugsa um að setja ræðismann eða viðskiptaskrifstofu, og stefnum að því, í Kaliforníu er til að reyna að fylgjast nákvæmlega með hvað er á döfinni. Það er ekkert leyndarmál að við litum sérstaklega til Dana sem hafa sagt að þeir séu með digital sendiherra eins og þeir kalla það. Það er auðvitað ekki sendiherra, þá er hugsunin sú að það skipti meira máli að þessi stórfyrirtæki í Kísildalnum, eins og Google og fleiri, hafi meiri áhrif á gang heimsmála en mörg þau ríki sem þeir eru í samskiptum við. Það er mikið til í því. En auðvitað er ekki hægt að hafa sendiherra gagnvart stórfyrirtækjum, jafn öflug og þau eru. Það er ánægjulegt að danska utanríkisráðuneytið hefur verið mjög tilbúið til að starfa með okkur að því þegar við erum að undirbyggja þetta og við lærum af þeim hvernig þeir hafa farið af stað með þetta og hvernig þetta nýtist. Þetta gengur m.a. út á að reyna að hafa eins góðar upplýsingar og hægt er og meta hvað er í pípunum og í leiðinni að hjálpa, þá sérstaklega hátæknifyrirtækjum í þeirra tilfelli, Danmörku, og í okkar tilfelli á Íslandi til að hasla sér völl á þessu sviði og ýta undir tengslamyndun og annað slíkt.

Ég skal alveg viðurkenna að maður verður örlítið þungur þegar maður hlustar á hv. þingmann fara yfir ógnirnar. Þær eru sannarlega til staðar. En sem betur fer eru líka mörg tækifæri í þessu. Það skiptir máli fyrir okkur Íslendinga að grípa þau. Það er ljóst að aukningin á útflutningsviðskiptum okkar verður að vera á sviði hátækni, þessarar svokölluðu fjórðu iðnbyltingar, því að við getum ekki bara treyst á náttúruauðlindir okkar, allra síst þegar við erum að tala um þessa miklu aukningu.