148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra og starfsfólki utanríkisráðuneytisins fyrir árlega skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem flutt er hér á þinginu. Áður en ég vind mér í áherslur og stefnumálin vil ég samt velta vöngum yfir því hvort það sæmi þeim sessi sem utanríkis- og alþjóðamál skipa í stefnu Íslands, líkt og hverra ríkja, að ræða þau á föstudagseftirmiðdegi þegar hugur þingheims og starfsorka er við nýframkomna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár og þá vinnu sem er í vændum hjá þingmönnum og þingnefndum næstu dagana.

Það hefur oft og iðulega verið rætt um það af hálfu þingmanna og nefndarmanna í hv. utanríkismálanefnd að auka veg utanríkis- og alþjóðamála hér í þingsal með því að veita rýmri tíma undir afmarkaðar umræður um þau mál, hvort sem um er að ræða í þinginu, umræðu um stöðuna í varnarsamstarfinu í Atlantshafsbandalaginu eða reglubundna virka umræðu um þróunarsamvinnustefnu Íslands. Þetta hafa margir þingmenn sem nú sitja á Alþingi bent á og fjölmargir forverar okkar hér. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er mér sammála um þetta.

Ég vil líka þakka fyrir þau nýmæli sem birt eru í árlegri skýrslu um utanríkismál og alþjóðamál er snúa að tölulegum upplýsingum um hverja sendiskrifstofu Íslands, hlutfallslega skiptingu verkefna, viðskipti, starfsfólk og kostnað. Þessar upplýsingar sýna svo ekki verður um villst að starfsfólk utanríkisráðuneytisins er vakið og sofið í vinnu sinni um allan heim við að halda á lofti hagsmunum og málefnum Íslands og kynningu á íslenskri menningu í hvívetna. Hljótum við að kunna þeim miklar þakkir fyrir það.

Því stingur það augljóslega í augu að sjá að sendiskrifstofur Íslands séu nú reknar með minnstan mögulegan mannafla. Sendiráðið í Mósambík er lokað og ákveðið er að leggja niður sendiráðsstarfsemi í Vín gagnvart Austurríki. Það er gert á tímum þegar efnahagslegar forsendur eru fyrir hendi til að bæta í viðveru okkar á erlendri grundu og styrkja okkar fyrirsvar og viðveru, hvort sem er í Brussel, Strassborg, við Evrópuráðið eða annars staðar. Viðvera okkar á erlendri grundu skiptir nefnilega máli, herra forseti, þó að margt gott sé hægt að gera frá utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg í Reykjavík. Og má líka velta fyrir sér hvort þessar góðu og gagnlegu upplýsingar ættu ekki betur heima á öðrum stað líkt og í skýrslu utanríkisþjónustunnar en hér í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál og alþjóðamál sem er eitt mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar þegar kemur að stefnumörkun og áherslum í utanríkismálum.

Þá vil ég reyna að vinda mér í áherslurnar og stefnumálin eins og ég var búin að boða. Í skýrslunni er afar vel farið yfir hagsmunagæslu Íslands á erlendri grundu og í samskiptum við aðrar þjóðir á borð við gríðarlega mikilvæga hagsmunagæslu Íslands þegar kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu sem er, eins og kemur fram í fjármálaáætlun undir utanríkismálakaflanum, talið vera eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda þessi misserin, eða við hagsmunagæslu Íslands vegna EES-samningsins. Það er vel og er sannarlega nauðsynlegur hluti af utanríkisþjónustunni að vera í virkri hagsmunagæslu en það er ekki alveg eins augljós pólitísk stefna eða pólitískar áherslur.

Herra forseti. Það er ekkert launungarmál þegar stjórnmálaflokkar sem eru saman í ríkisstjórn og eru lengst í burtu hverjir frá öðrum þegar kemur m.a. að stefnumálum þeirra í utanríkismálum að þá sé viðbúið þegar kemur að áherslum og stefnu að hætta sé á því að málamiðlunin verði fremur flatneskjuleg. Væntingar mínar til þess að áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs endurspeglist í stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum og alþjóðamálum eru miklar, kannski of miklar, kannski óraunhæfar, en þær eru sannarlega til staðar. Ég hefði satt að segja viljað sjá skýrari áherslur er ríma við áherslur stjórnmálahreyfingar minnar á borð við áherslur íslenskra stjórnvalda í að stuðla markvisst að því í ræðum, ritum og beinum aðgerðum á alþjóðavísu að jafna kjör fólks um allan heim, en líkt og við vitum er sívaxandi ójöfnuður ein mesta ógn við heimsfrið.

Ójöfnuður þegar kemur að aðgangi að auðlindum og náttúrulegum gæðum er oft uppspretta átaka, fátæktar og félagslegrar niðurlægingar sem býr til ósanngjarna misskiptingu gæða á milli heimsbúa og leiðir til harðvítugra átaka fólks. Jöfnuður á milli manna er grundvöllur friðar. Um það verður Ísland að tala og ekki bara tala heldur beita sér fyrir í hvívetna. Við þurfum að vera óhrædd í áherslum okkar í alþjóðamálum að stuðla að og beita okkur með beinum og markvissum hætti að því að koma á fót róttækum breytingum á því hvernig við útdeilum völdum gæðum milli ríkja sem og innan þeirra, svo sem á milli stétta, kynja og kynþátta. Ísland á að beita sér alþjóðlega fyrir efnahagslegum jöfnuði á milli fólks sem dregur úr líkum á því að átök brjótist út. Og þetta leiðir mig að áherslum Íslands sem koma fram í þróunarsamvinnu.

Það er vissulega mjög jákvætt að loksins skuli nú áætlað að framlag Íslands til þróunarsamvinnu skuli hækka næstu árin enda ekki seinna vænna eftir mögur ár. Ég fagna því og ég fagna þeim áherslum í þróunarsamvinnu Íslands sem snúast um að valdefla konur og stúlkur í þróunarríkjum og efla aðgang þeirra að menntun, en ég hefði gjarnan viljað sjá enn metnaðarfyllri markmið í framlögum Íslands til þróunarsamvinnunnar og að við myndum loksins standa við loforð okkar um að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og þar með skipa okkur loksins við hlið þeirra landa sem við miðum okkar alla jafnan við. Eftir fimm ár munum við veita helming af því loforði til þróunarsamvinnu. Þarna er sannarlega hægt að gera betur. Því miður get ég ekki séð betur en að hér komi fram sömu áherslur og í síðustu ríkisstjórn, sem er að veita hluta af þeim framlögum til þróunarsamvinnunnar í aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur hér innan lands. Það að þeir fjármunir séu hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands á erlendri grundu fellur einfaldlega alls ekki undir almennar skilgreiningar á þróunarsamvinnu og er alls ekki í samræmi við áherslur Íslands í þróunarsamvinnu.

Í jafningjaúttekt DAC-nefndarinnar er minnst á þetta hlutfall sem er tæplega 12% af þeim fjármunum Íslands sem fara í málefni flóttafólks og hælisleitenda af þróunarsamvinnufjármunum. En vonandi getum við öll, alla vega flest, verið sammála um að það þarf sannarlega að auka fjármuni í þann málaflokk en ekki taka það af fjármunum í þróunarsamvinnu. Innan DAC-nefndarinnar eru lönd sem hafa beitt sér fyrir því að fella þessi opinberu fjárútgjöld saman og það er miður, en ég vona að Ísland sé ekki komið í hóp þeirra landa sem halda úti þeim áherslum. Það kemur því miður skýrt fram í skýrslu DAC-nefndarinnar, þetta tel ég vera miður og þurfi hreinlega að leiðrétta.

Málefni flóttafólks og hælisleitenda hér á landi falla undir verkefnasvið velferðar- og innanríkisráðuneytisins og eiga að vera aðskilin framlagi Íslands til þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi. Að því sögðu þarf Ísland að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum. Það gerist í gegnum þróunarsamvinnuna og meiri áherslu á þá vinnu. Íslandi ber siðferðisleg skylda að auka framlag sitt í þróunar- og mannúðarmál og ég nefni hrikaleg stríðssvæði á borð við Sýrland, Jemen og hryllilegar aðstæður Rohingja-fólks á flótta. Við eigum nefnilega öll að halda af öllu afli í mannúðina sem drífur áfram samkenndina sem tengir okkur öll saman svo við getum leyst okkar erfiðustu vandamál á borð við skelfileg stríð, hörmungar og fátækt í heiminum.

Ég vil líka nota tækifærið og hrósa því sem hefur verið vel gert í þróunarsamvinnu og því sem íslensk stjórnvöld og íslenskir starfsmenn hafa komið til leiðar í gegnum þróunarsamvinnu, bæði sjálf og í samstarfi við alþjóðleg hjálparsamtök. Það er virðingarvert og það er sannarlega frábært, það sem við höfum komið áleiðis og er okkur hvatning til að auka framlög okkar frekar. Við getum það, við höfum efnahagslega burði til þess.

Herra forseti. Síðan eru það öryggis- og varnarmálin. Ég lýsti því yfir í gær í umræðum um fjármálaáætlun er varðar utanríkismál að ég hnyti verulega um beina aukningu á fjármunum og mikla hlutfallsaukningu á framlagi Íslands innan NATO til að tryggja varnir Íslands næstu fimm árin. Þessar miklu aukningar þarfnast einfaldlega ítarlegrar útskýringar og umræðu á þinginu. Sér í lagi það sem kemur fram í skýrslunni að það sé tilgangur sameiginlegrar yfirlýsingar Íslands og Bandaríkjanna árið 2016 að nú séum við að styðja við tímabundna viðveru erlends liðsafla á Íslandi. Versnandi horfur í öryggismálum og breytt öryggisumhverfi í Evrópu er notað sem ástæða fyrir þessum mikla stuðningi, sem er svo mikill að hann er næstum þreföld aukning fjármuna frá því í síðustu fjármálaáætlun. Þetta er ekki lítil aukning og þarfnast umræðu hér í þinginu.

Það þarf ekki að tíunda stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, stefnu sem endurspeglar stefnu vinstri manna í tæp 70 ár og líka stefnu friðarsinna hér á landi um áratugaskeið. Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. Þetta hefur verið stefna VG frá stofnun og verður að koma með einhverjum hætti skýrar fram í stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum og alþjóðamálum. Það getum við til að mynda gert sem herlaus þjóð sem beitir sér ávallt með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir friðarumleitunum og talar skýrt gegn stríðsátökum og fyrir friði. Við eigum að sýna að við virðum vopnaviðskiptasamning Sameinuðu þjóðanna og alþjóðleg mannúðarlög og við förum eftir þeim í hvívetna. Stríð og hernaður leysir engin vandamál eins og við vitum.

Síðan þurfum við Íslendingar að halda úti femínískri utanríkisstefnu. Leggja áfram áherslu á kynja- og jafnréttismál á alþjóðavettvangi, auka framlag okkar enn frekar til jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi og breikka aðkomu okkar enn frekar í þeim málum. Við erum komin með mjög góða reynslu úr þróunarsamvinnunni og úr utanríkisþjónustu okkar og ef við viljum sýna þá pólitísku áherslu að halda úti utanríkisstefnu sem er drifin áfram af jafnrétti kynjanna í hvívetna getum við svo sannarlega horft til Svíþjóðar sem hefur haldið úti mjög markvissri og árangursríkri femínískri utanríkisstefnu frá árinu 2015. Við getum lært mjög mikið af Svíum og eigum að mínu mati að feta í fótspor þeirra og taka forystu í þeim áherslum á alþjóðavettvangi. Halda áfram okkar góða jafnréttisstarfi á alþjóðavettvangi, gefa í og gera það starf markvissara.

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem fram kemur í skýrslunni um aukið vægi auðlinda- og umhverfismála í utanríkismálum og verkefna á alþjóðavísu er varðar loftslagsbreytingar. Við vitum að aukinn ágangur á auðlindir jarðar og áhrif mannkynsins á loftslag hennar leiðir af sér fólksflótta, misskiptingu auðs og misskiptingu aðgangs að náttúruauðlindum og umhverfisáhrif sem stefnir lífríki jarðar, vistkerfum og mannkyninu sjálfu í hættu. Við sem ríki höfum undirgengist ýmsa alþjóðlega samninga og skuldbindingar er snúast um umhverfismál og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Við getum lagt mikilvæg lóð á þær vogarskálar og eigum að gera það með það í huga að Ísland er eyja en ekki eyland og við eigum að leggja okkar af mörkum á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að sporna við loftslagsbreytingum.

Að lokum vil ég minna á það að Ísland á að halda úti sjálfstæðri utanríkisstefnu og leggja áherslu á alþjóðavettvangi á frið, mannréttindi og mannúð, réttlæti og lýðræði. Saga okkar, menning og samfélagsgerð gefur okkur forskot og við eigum að nýta það forskot og standa bein í baki og full sjálfstrausts þrátt fyrir smæð okkar. Fámenn ríki hafa nefnilega komið frábærum hlutum til leiðar í alþjóðasamhengi og þar erum við engin undantekning.