148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir ýmislegt, ég þakka henni fyrir það. Ég get nú ekki farið í gegnum það allt saman. Mér finnst hins vegar svolítið skrýtið að hún talar svolítið eins og við séum ekkert að sinna jafnréttismálunum. Jafnréttismálin eru þungamiðja í allri okkar utanríkisstefnu. Reyndar er það svo að nú á mánudaginn er ég að fara í boði utanríkisráðherra Svía, Margotar Wallström, á jafnréttisráðstefnu þar sem ég var beðinn um að ávarpa og taka þátt í pallborði. Það er út af framgangi okkar í jafnréttismálum hvað varðar utanríkismál. Mér finnst ekki sanngjarnt að tala um það eins og við séum ekki að gera neitt. Það er langur vegur þar frá.

Ég er sammála hv. þingmanni um að starfsfólk utanríkisráðuneytisins standi sig mjög vel. Við sjáum miklar breytingar verða á utanríkisþjónustu alls staðar í heiminum, þess vegna fórum við m.a. í þessa vinnu. Það liggur fyrir að gamla ímyndin varðandi sendiráðin er að breytast, bara út af tæknibreytingum og öðru slíku.

Þess vegna erum við með þessar tilfærslur sem hún nefndi, t.d. að loka í Vín. Á móti kemur að við erum að bæta mjög mikið í í Brussel út af hagsmunagæslu og EES. Þar eru 243 milljónir á ári, hvorki meira né minna. Við erum komin með viðskiptafulltrúa í Asíu og Ameríku. Þegar kemur að þróunarmálunum — ef við ætlum virkilega að hjálpa þessu fólki til sjálfshjálpar verður það að hafa aðgang að öðrum mörkuðum. Það þarf að geta nýtt þau tækifæri sem það hefur. Við Íslendingar erum skilgreint gott dæmi um það. Þetta fólk er ekkert öðruvísi en við. Við erum nákvæmlega eins alls staðar, sama hvar við erum í heiminum. Ástæðan fyrir því að við erum komin á þennan stað er sú að við höfum aðgang að öðrum mörkuðum. Það er það sem þetta fólk hefur verið að berjast fyrir og við tökum undir það.

Áherslur okkar í þróunarmálum eru svo sem ekki bara jafnréttismálin eins og hv. þingmaður fór inn á, heldur ýmislegt annað sem ég get farið betur í hér á eftir. Það er, held ég, nokkuð sem við ættum öll að geta verið sammála um.