148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þingmann alveg núna. Ástæðan fyrir því að Svíar eru að kalla á okkur, eða Margot Wallström að bjóða mér sem fulltrúa Íslands, er sú að fólk telur að við höfum náð þannig árangri að við höfum einhverju að miðla. Fólk hefur tekið eftir því að við höfum verið að leggja áherslu á jafnrétti, ekki bara þegar kemur að þróunarmálum heldur líka viðskiptamálunum. Einn stærsti viðburðurinn á ársfundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Buenos Aires núna síðast var einmitt, að frumkvæði okkar, það sem snýr að jafnréttismálum í tengslum við fríverslun. Eftir þessu er tekið.

Ég vísaði til þess í framsöguræðu minni að þetta snýst ekki bara um skoðun okkar í utanríkisþjónustunni, þetta er ekki eitthvað sem hefur poppað upp á Rauðarárstígnum. Þar sagði ég að framlög hins opinbera væru ekki eina leiðin til að fjármagna þróunarsamvinnu. Virkja þarf atvinnulíf betur til þátttöku í þróunarstarfi í samræmi við ákall alþjóðasamfélagsins og hvetja til fjárfestinga og viðskipta. Það eru skilaboðin í niðurstöðum alþjóðlegrar ráðstefnu um fjármögnun þróunar í Addis Ababa árið 2015 og hvað Ísland varðar í samræmi við nýlega jafningjarýni þróunarnefndar OECD.

Auðvitað er þetta alltaf það sama. Við hefðum aldrei brotist úr fátækt nema við værum með öflugt atvinnulíf. Ef við ætlum að hjálpa fólki úr fátækt verður það að hafa vinnu og tekjur. Það er það sem við verðum að hjálpa fólki með og skapa aðstæður til þess að svo geti orðið. Markmiðið hlýtur alltaf að vera að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Sem betur fer höfum við séð breytingar verða, fjölmennar millistéttir eru að koma upp og við erum að auka útflutning okkar til þess fólks. Það er vegna þess að í það heila hefur vel tekist til þó að enn séu mjög mörg verkefni óleyst þegar kemur að þróunarmálum. Við ætlum að vera fullir þátttakendur í því áfram að hjálpa til og leggja okkar af mörkum í þeirri baráttu.