148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að undirstrika mikilvægi svona umræðu um utanríkismál. Hér ræðum við skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, sem fær pláss í dagskrá þingsins hverju sinni, en ég vil taka undir þau sjónarmið sem hafa verið sett fram m.a. af hv. síðasta ræðumanni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, um mikilvægi þess að við tökum fleiri umræður um utanríkismál. Utanríkismálin, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum málaflokkum, hafa svo mikla vigt og þýðingu fyrir okkar daglega líf, tækifæri okkar Íslendinga í alþjóðaheimi, í samskiptum við þjóðir. Það er mikilvægt fyrir okkur að veita svigrúm fyrir auknar umræður um utanríkismál í sal þingsins og ég beini því til hæstv. forseta að unnið verði að því.

Ég ætla að koma aðeins að því á eftir hvernig við mótum utanríkisstefnu okkar og hvernig við ræðum hana. En ég vil líka minna á að það hefur náðst samkomulag um að umræðunni verði frestað, líklega eftir að hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur talað, og hvet til þess að það verði sem fyrst tekinn tími fyrir framhald umræðunnar. Ég veit að alla vega mitt fólk í Viðreisn, þingmennirnir þar, vill ræða um þessi mál. Þetta eru brýn mikilvæg hagsmunamál og það skiptir máli hvernig er talað fyrir Íslands hönd á erlendri grundu, það skiptir máli hvaða skilaboð Ísland sendir út í umheiminn, það skiptir máli hvernig við berjumst fyrir eða ýtum undir þau réttindi og þær skyldur sem við þurfum líka að undirgangast á alþjóðavísu. Þetta eru vinsamleg tilmæli til hæstv. forseta.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa minnst á það að þetta er mjög aðgengilegt plagg og skemmtilega uppsett. Ég er nú búin að vera hérna hátt í 20 ár og það er aðeins meiri nútímabragur á þessu en oft áður og er svolítið í samhengi við þá skýrslu sem ég tel að við þurfum að ræða einhvern tímann í þingsal um nýskipan í utanríkisþjónustunni, skýrslu sem hæstv. ráðherra skilaði til okkar í haust. Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að fara yfir hana líkt og við erum að gera núna.

Í þessari skýrslu eru nefndir mikilvægir hlutir strax í inngangi sem utanríkisráðherra fór reyndar yfir í ræðu sinni með þessum fína hraðlestri. Við erum búin að vera svolítið á hraðlestrarnámskeiði undanfarinn sólarhring hér í þingsal, en í inngangi segir réttilega, með leyfi forseta:

„Fyrir eitt hundrað árum gengu Íslendingar formlega í samfélag þjóðanna og þá hófst jafnframt samleiðin með öðrum vestrænum ríkjum sem búa við frelsi og lýðræði, mannréttindi og frjálst hagkerfi.

Síðari heimsstyrjöldin færði Íslendingum heim sanninn um að gamla hlutleysisstefnan tryggði ekki lengur frið og öryggi. Því var nauðsynlegt að hverfa frá henni og gerast þátttakandi í öryggismálasamstarfi vestrænna lýðræðisríkja.“

Allt sem þarna stendur er satt og rétt. Þetta er mikilvægt. Þetta leggur grunninn að því hvernig við Íslendingar höfum á síðustu hundrað árum eftir að við fengum fullveldi 1918 ekki bara varðveitt fullveldi okkar heldur líka hvernig við höfum með mikilli vinnu, umræðu, gagnaöflun staðið vörð um fullveldið og verið fullgild á meðal þjóða heimsins.

Ég vil eindregið taka undir þessi upphafsorð í skýrslunni, þ.e. að undirstrika mikilvægi alþjóðasamstarfs, mikilvægi þess að við Íslendingar horfumst í augu við það að því fylgja ekki bara réttindi að vera fullvalda þjóð, sjálfstæð þjóð, því fylgja líka skyldur á alþjóðavísu. Þær tengjast að ég tel síðan beint okkar markmiðum og stefnu í utanríkismálum, það er að hlúa að og ýta undir allt sem getur þróað aukið lýðræði í heiminum því að við hér erum held ég eiginlega öll sannfærð um að þar sem lýðræði er varðveitt og gætt að því að gangreglur þess virki eru miklu meiri líkur á því að frelsi, umburðarlyndi, jafnrétti og náungakærleikur fái þrifist. Efling lýðræðis, stuðningur við mannréttindi, jafnréttismál, umhverfismál og frelsi í sinni víðustu mynd — þetta eru hornsteinarnir í okkar utanríkispólitík.

Ég er sannfærð um að öll þau skref sem við tókum á þessu hundrað ára tímabili og sérstaklega frá árinu 1949, 30. mars, þegar við gengum í NATO, erum einn af stofnaðilum þess, hafi verið farsæl, að þau skref hafi verið rétt.

Í skýrslunni er talað svolítið um samstarf Norðurlandanna og ég fagna því sérstaklega. Ég hef tekið þátt í ríkisstjórn og verið formaður ráðherranefndar um þá málaflokka sem ég bar ábyrgð á á sínum tíma. Það er ekki bara að þetta sé skemmtilegt og gefandi, það koma upp nýjar hugmyndir og það eykur dýptina og þekkinguna og samheldnina hjá Norðurlandaþjóðunum að vera svolítið merkisberar þess að halda uppi lýðræði og mannréttindum í heiminum og standa vörð um þau. Þess vegna er svo mikilvægt að Norðurlöndin standi saman og þau vinni í því. Það hefur gengið misvel. Mér finnst oft og tíðum að Norðurlandaráðssamstarfið fái ekki næga vigt innan þingsins. Jú, það gengur vel, fundur núna um daginn á Akureyri, en við megum ræða meira um þetta og vinna betur í því. Þess vegna finnst mér fróðlegt að fylgjast með því hvernig utanríkisráðherra ætlar að halda utan um samstarf Norðurlandanna. Ég hvet hann til þess að gera það í samvinnu við þingið sem mun miklu frekar vera stuðningur við ráðherra en hitt.

Af hverju er samstarf Norðurlandanna mikilvægt? Það er mikilvægt út frá grundvallarsjónarmiði okkar Íslendinga um lýðræði, mannréttindi og frelsi og þeirri menningu, því menningarmengi sem við Íslendingar tilheyrum með því að vera hluti af Norðurlöndunum.

Norðurlöndin, meiri hluti þeirra, hafa kosið að vera í einu eða öðru samstarfi við Evrópusambandið. Meiri hluti þeirra er aðilar og fullir þátttakendur í Evrópusambandinu og síðan hafa tvö þeirra, Ísland og Noregur, farið langleiðina með það með undirritun mikilvægasta utanríkisviðskiptasamnings sem við Íslendingar höfum gert, sem er náttúrlega EES-samningurinn.

Noregur er ótrúlega ötult land og það er svolítið gaman og fróðlegt að sjá, enda hafa Norðmenn miklu meira fjármagn en við, hvernig þeir vinna að sínum málum. Þeir koma strax frá upphafi að allri frumvinnu hjá Evrópusambandinu í þeim málum sem snerta okkur innan EES-samningsins. Það er náttúrlega rangt sem hefur verið haldið fram að við innleiðum 13,4% af regluverki Evrópusambandsins. Við innleiðum það sem Norðmenn gera nákvæmlega, það er hátt í 80% eins og segir m.a. í skýrslu Norðmanna, það er bara verið að snúa málum svolítið á haus, eða afvegaleiða umræðuna. Við innleiðum náttúrlega það sem við erum aðilar að, sem er innri markaðurinn. Við erum ekki aðilar að t.d. landbúnaðarkerfinu. Við erum ekki aðilar að sjávarútveginum. (Gripið fram í.)Nei, við erum það ekki. Við innleiðum náttúrlega ekki annað en það sem við erum aðilar að. Þar stöndum við okkur þokkalega, megum gera betur. Ég fagna því og gerði það reyndar í gær líka að það er markmið að reyna að draga úr innleiðingarhallanum.

Innleiðingarhallinn byrjaði ekki í tengslum við umsókn Íslands að Evrópusambandinu heldur fór hann af stað mun fyrr, fyrir hrun eins og skýrslur benda til. Það þýðir ekki að við eigum ekki að tilgreina tímann, við þurfum einfaldlega að standa okkur vel af því að þetta skiptir okkur máli. Bara út frá viðskiptalegum sjónarmiðum Íslands eru hagsmunir okkar í tugum milljarða taldir með því að hafa verið aðilar að EES-samstarfinu og undirritað EES-samninginn.

Fyrir þessu gera m.a. stærstu flokkar Noregs sér grein sem hafa aldrei setið saman í ríkisstjórn, Høyre og Arbeiderpartiet, Verkamannaflokkurinn norski. Þeir hafa ekki verið saman í ríkisstjórn, en eru eindregið sammála um að menn eigi að vera aðilar að Evrópusambandinu. Þó að skoðanir innan flokkanna séu skiptar umgangast menn hver annan af virðingu, en sýn bæði Høyre og Arbeiderpartiet hefur verið sú að vera þátttakendur af fullum krafti í EES-samstarfinu. Það eru ekki nema hjáróma raddir í Noregi sem eru popúlistaflokkar sem vilja draga úr mikilvægi EES-samstarfsins. Við eigum að fara mjög gegn því. Ég bind vonir við það, ekki síst eftir orðaskipti við hæstv. utanríkisráðherra í gær, að hann verði ötull samherji í því að flagga svolítið EES-samningnum og byggja undir hann sem er okkur svo gríðarlega mikilvægur.

Þjóðaröryggismálin, bara aðeins að stikla á stóru, tíminn flýgur frá manni. Ég vil hæla ráðherra fyrir það að setja þjóðaröryggismálin í skýran farveg, það skiptir máli. Ég er þeirrar skoðunar eins og ég hef talað um að það hafi verið farsælt skref fyrir íslenskt samfélag að gerast þátttakendur að NATO og taka af fullum krafti þátt í öllu alþjóðasamstarfi, hvort sem er í gegnum Sameinuðu þjóðirnar, vestrænt varnarsamstarf eða annað. Það var farsælt skref. Það er samt pínu vandræðalegt fyrir, kannski ekki rétt að segja ríkisstjórnina en ekki síst fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð sem enn hefur í sinni grunnstefnu að betra sé að vera utan varnarbandalagsins, utan NATO. Hér koma þingmenn Vinstri grænna hlaupandi inn og gefa merki. Já, það er allt satt og rétt, við viljum ekki vera aðilar að NATO. Það er gott að það sé staðfest. En ríkisstjórnin hefur það sem betur fer í stjórnarsáttmála sínum að þjóðaröryggisstefna sem var samþykkt á Alþingi verði höfð að leiðarljósi. Vel að merkja, þjóðaröryggisstefnan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einn flokkur sem sat hjá út af sinni grunnstefnu að vera á móti NATO, það var náttúrlega Vinstrihreyfingin – grænt framboð.

Það er rétt sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur bent á, að það er sósíalisti við borðsendann sem er á móti því að Ísland sé í NATO og hefur núna undirgengist þessa þjóðaröryggisstefnu sem þau greiddu ekki atkvæði með, sem þau studdu ekki en fylgja henni nú sem betur fer. Ég vil því hrósa hæstv. utanríkisráðherra og Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa látið Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í raun kyngja þessari stefnu, af því að hún er mikilvæg. Ég er þeirrar skoðunar. Þess vegna finnst mér mikilvægt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi kyngt þessu. Ég veit ekki hvort þau hafi tekið þetta formlega fyrir hjá sér að þjóðaröryggisstefnan er núna stefna sem VG styður og vinnur að. Það var mjög upplýsandi og um leið þakkarvert að forsætisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar þingsins og útskýrði það mjög gaumgæfilega að það væri ekki vandamál af þeirra hálfu að vinna og fylgja eftir stefnunni, þetta væri lýðræðislega samþykkt stefna í þinginu og þess vegna myndi VG og ríkisstjórnin undir forystu þeirra vinna að henni. Það er mikilvægt að þetta sé á hreinu. Mér finnst það skipta máli og vil hrósa þeim sem drógu Vinstri græna inn á þennan vagn.

Ég hef talað um að það sé umhugsunarvert hvernig utanríkisstefnan er mótuð hverju sinni. Það er gott og við eigum að viðhalda þessu góða samstarfi og ég vil hrósa núverandi formanni utanríkismálanefndar fyrir að sýna mikla lipurð og reyna að stuðla að þessu mikla samtali og samstarfi, ekki síst við utanríkisráðuneytið.

Ég vil tala um það sem ég kom að áðan. Mér finnst að við eigum að færa utanríkisstefnuna og málin meira hingað inn í þingsal út af vigt og vægi málaflokksins. Það þýðir ekki eingöngu að heyra yfirlýsingar utanríkisráðherra á erlendri grundu, við viljum fá þetta meira hingað inn. Þegar ég segi þetta er ég með hættuna við rangt stöðumat í alþjóðasamskiptum í huga. Hver er hættan? Hún er sú að við tökum óskynsamlegar ákvarðanir. Þess vegna er mikilvægt að þær upplýsingar sem er miðlað, m.a. af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, séu réttar, það sé ekki verið að afbaka þær. Og við höfum að mínu mati mjög vont dæmi um slíkt og mikilvæga atkvæðagreiðslu sem var afbökuð. Það er Brexit.

Það vita allir að settar voru fram ákveðnar upplýsingar, tölulegar upplýsingar, massífar auglýsingar um að ef Bretar færu út úr Evrópusambandinu myndu þeir fá a.m.k. 400 milljarða punda inn í breska heilbrigðiskerfið. Í dag kannast enginn við þessar yfirlýsingar og vilja ekki segja að þær hafi verið endilega hárréttar. Það sem er svo hættulegt í utanríkismálum, hvort sem við erum með eða á móti ESB, er að við miðlum ekki réttum upplýsingum, að það sé verið að bera t.d. saman epli og appelsínur þegar er verið að tala um tölur.

Ég vil hvetja utanríkisráðherra til að setja upplýsingar fram með réttum hætti. Til dæmis hefur utanríkisráðherra talað um að það væri vont að fara í ESB — ég vil frekar fara inn í ESB en utanríkisráðherra ekki, kemur engum á óvart — því að þá værum við að yfirgefa tiltölulega einfalt viðskiptakerfi, viðskipti yfir landamæri, utanríkisviðskiptakerfi. Það er bara ekki rétt. Það er bara ekkert sem bendir til þess að það sé rétt.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í gögn. Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðabankanum erum við í 69. sæti varðandi viðskiptakerfi og utanríkisþjónustu í heiminum. Við erum fyrir neðan öll ESB-ríkin. Er það (Forseti hringir.) ofsalega einfalt viðskiptakerfi sem við erum að verja? Nei, frú forseti. Ég er ekki búin með nema einn tíunda af minni ræðu, (Forseti hringir.) ætlaði m.a. að koma að ábendingum um það hvernig við tökum málin lengra, sem ég tel mikilvægt. Ég mun gera það í framhaldsumræðu um þetta mál en í heildina fagna ég því að við fáum þó tækifæri til þess að ræða þetta núna. Ég hlakka til frekari umræðu.