148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum reyna að taka þessa umræðu aðeins lengra. Ég skil vel að hæstv. ráðherra geti af og til orðið hvumpinn við að sjá mig, ég get stundum verið ógeðslega leiðinleg, ég viðurkenni það. En eigum við ekki að reyna að taka umræðuna samt lengra? Ég er óskaplega glöð yfir því að utanríkisráðherra vill að við byggjum á upplýsingum. Eigum við þá að segja, og við sammælumst um það, að við erum ekki á sömu skoðun varðandi Evrópusambandið? Getum við verið sammála um að áskoranir núna á alþjóðavísu séu það gríðarlega miklar að það sé tími núna fyrir Íslendinga til að kortleggja og setja niður nefnd svipað og gert var, þverpólitíska nefnd, á sínum tíma þegar við gengum í EFTA, í aðdraganda EFTA, undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar og síðan fyrir ríflega tíu árum undir forystu Björns Bjarnasonar? Allt nefndir sem skiluðu mjög gagnlegum upplýsingum fyrir þingið en ekki síður fyrir þjóðina, eitthvað sem þjóðin gat leitað til.

Norðmenn tóku sér tvö ár í að gera gagnmerka Per Seierstad-skýrslu varðandi stöðu Noregs og EES-samningsins. Getum við sammælst um að fara í vönduð vinnubrögð í staðinn fyrir að vera í einhverjum krytum hér á þingi þessu tengt?

Ég vil einfaldlega hvetja ráðherra til að gera það og taka því jákvætt. Ef það er ekki verðum við í endalausu rifrildi og hjakki hér næstu árin í staðinn fyrir að reyna að vera uppbyggileg og skila einhverju til þjóðarinnar, því að ég trúi ekki öðru en að á endanum í því máli sem við erum að ræða, Evrópusambandið, með eða á móti aðild eða ekki, komi það til kasta þjóðarinnar. Þá verðum við að undirbyggja gagnmerkan grunn fyrir þjóðina til að geta tekið afstöðu til þess. Ég vona að við getum þó sammælst um það, hæstv. ráðherra, að fara í þetta.

Ég vil síðan benda hæstv. ráðherra á — ég sé núna að ég ætla að koma að því í seinna svari mínu — að þetta eru bara vinsamleg tilmæli. Getum við ekki sammælst um það að vanda vinnubrögð, vera ekki í einhverjum metingi um hver hafi rétt fyrir sér, appelsínur eða epli? Setjum þetta í faglegan farveg. Ég veit að utanríkisráðherra hefur alveg dug og kjark og nennu til að gera það og sýna forystu í þessu máli. Ég treysti honum vel til þess.