148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bjóða hæstv. utanríkisráðherra velkominn í það ef hann ætlar að fara að hugsa stærra í utanríkismálum. Öðruvísi mér áður brá. Það er gott að hann er að læra og þroskast við að vinna innan utanríkisráðuneytisins, því að þar er margt góðra manna og kvenna. Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra til þess að taka þetta lengra, reyna að sýna smámálefnalegheit þegar við ræðum þessi mál, því að máli skiptir hvernig við ræðum um utanríkismál, í hvernig farveg við setjum þau.

Ég vil hins vegar líka brýna hæstv. utanríkisráðherra, því að það setur að mér ugg að sjá hvert hann og flokksmenn hans eru að fara þegar kemur að EES-málum, verið er að grafa undan EES-samstarfinu að mínu mati af hálfu Sjálfstæðisflokksins.

Ég vil líka hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að vera ekki bara að gapa yfir Brexit og Brexit-sinnum og vinum sínum í Bretlandi. Því að Bretland er að semja við Evrópusambandið. Við erum hluti af innri markaði Evrópusambandsins, alveg eins og við eigum að gæta hagsmuna okkar gagnvart Bretlandi, því mikilvæga landi í utanríkisviðskiptaþjónustu lands okkar. Við verðum líka að gæta hagsmuna okkar þegar Evrópusambandið er að semja við Breta. Það þýðir að utanríkisráðherra verður, hvort sem honum líkar það betur eða verr, að fara til Brussel, að gera það sem við erum að predika í skýrslunni um utanríkismál, að vinna heimavinnuna okkar á grundvelli EES-samningsins, að reyna að koma að athugasemdum okkar og hagsmunagæslu strax frá upphafi. Það þarf að gera núna þegar Evrópusambandið er að semja við Breta.

Það þýðir ekki að þusa yfir Evrópusambandinu. Við verðum að gæta hagsmuna okkar á grunni EES-samningsins. En miðað við það hvernig utanríkisráðherra talar efast ég um að svo verði gert.