148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að komið var inn á stefnu okkar í Vinstri grænum, hvort við værum ekki örugglega enn þá á móti aðildinni að NATO, vildi ég koma upp í andsvar og segja um það nokkur orð.

Jú, það er svo sannarlega enn þá skoðun okkar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði að við teljum hagsmunum Íslands betur borgið utan NATO. En það ber líka að líta til þess að við erum ekki eins máls hreyfing, það er fullt af öðrum stefnumálum sem við viljum berjast fyrir í pólitík og sem við teljum mikilvæg. Við teljum þess vegna mikilvægt að koma til að mynda að ríkisstjórnarþátttöku þrátt fyrir að við gætum þurft að vinna með flokkum þar sem ekki eru sammála okkur þegar kemur að NATO. Reyndar var það svo síðast þegar ég vissi að við erum eini flokkurinn sem er með þetta aktífa stefnumál, þ.e. úrsögn Íslands úr NATO. Við værum þá bara að dæma okkur úr leik þegar kæmi að ríkisstjórnarþátttöku og varðandi það að koma öðrum stefnumálum okkar að ef það væri frágangssök.

Það er rétt að við sátum hjá þegar kom að því að greiða atkvæði um þjóðaröryggisstefnuna. Við greiddum ekki atkvæði gegn því vegna þess að í þjóðaröryggisstefnunni eru önnur atriði sem við teljum skipta gríðarlega miklu máli. Ég ætla að nefna tvö dæmi; netöryggismálin og friðlýsingu lögsögu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. En við erum líka þingræðissinnar. Við verðum að beygja okkur undir það að við erum enn sem komið er í minni hluta þegar kemur að afstöðunni til NATO, en það er eitt af því sem er markmið okkar í þessum þingsal, að tala fyrir stefnu okkar í því efni. Við ætlum svo sannarlega að halda áfram að gera það, líka í ríkisstjórnarsamstarfinu.