148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Allt hárrétt. Hægt er að taka undir það, en ég held að það hljóti allir að skilja að þetta þarf að vera skýrt þegar í fyrsta sinn í sögunni er flokkur í forystu í ríkisstjórn sem er á móti NATO að afstaða hans sé útskýrð. Og ég verð að segja að mér fannst forsætisráðherra takast vel að skýra það. Lái mér hver sem vill.

Eftir að hafa hlustað á ræður utanríkisráðherra, lesið skýrsluna, skoðað hvað er að gerast á erlendri grundu, líka hér innan lands, yfirlýsingar úr Sjálfstæðisflokknum — við sjáum að í Framsóknarflokknum er nokkur andstaða gagnvart Evrópusambandinu og það er mikil andstaða innan Vinstri grænna gagnvart Evrópusambandinu, sumir eru líka á móti EES-samstarfinu — óar mér við því hvaða er að teiknast upp á borðinu núna. Það er ákveðin íhaldssemi, ákveðin tregða og ákveðin öfl sem eru að grafa undan samstarfi okkar á grundvelli EES-samningsins. Ég vara við því að hleypa þeim öflum að og gefa þeim lausan tauminn. Mér finnst ekki fýsilegt að þrír íhaldsflokkar eða framsóknarflokkar, eða hvaða nafni sem þið nefnið þá, nái málamiðlun á þeim grunni hvernig Ísland eigi að haga sér á alþjóðavísu og hvernig við ætlum að byggja upp Evrópusamstarfið.

Ég er ekki sammála því að Bandaríkin ein og sér séu mikilvægust fyrir okkur, eins og ég hef heyrt utanríkisráðherra tala um, og Bretland í öðru sæti. Ég held að samstarf okkar byggist mjög mikið á því að vera í bandalagi og samstarfi við aðrar þjóðir, eins og Norðurlandaþjóðirnar hafa gert. Þær eru í mjög nánu samstarfi við Evrópu og það er engin tilviljun að svo er, bæði í gegnum Evrópusambandið og síðan í gegnum EES-samninginn. Þess vegna mun ég spyrna við fótum, sem og Viðreisn, ef að því kemur að utanríkisráðherra, með stuðningi ríkisstjórnarinnar, með stuðningi Vinstri grænna og hugsanlega Framsóknar líka, fari að grafa frekar undan EES-samstarfinu. Þá þarf að segja stopp.