148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:56]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna. Ég tek undir það með öðrum hv. þingmönnum að hún er afskaplega aðgengileg og ljóst að búið er að leggja talsverðan metnað í hana. Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka fyrir að við þingmenn höfum tækifæri til að taka umræðu um utanríkismál í þessum sal, sér í lagi af því að umræða um þessa skýrslu er aðeins breiðari en oft gerist þegar þingmál eru rædd sem tengjast utanríkisstefnunni og utanríkismálum. En tilefni væri þó til, eins og komið hefur fram hér í umræðunni í dag, að taka umræðu um utanríkismál og stefnuna oftar í þessum þingsal og ná kannski dýpri umræðu um einstök málefni og afmarkaðri en næst hér í dag og þegar þessum umræðum verður fram haldið.

Það er ljóst að þessi viðamikla skýrsla snertir á fjölda mála, allt frá skipulagi utanríkisþjónustu og borgaraþjónustu og frá alþjóðasamstarfi út í ítarlega og góða umræðu um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, um menningar-, öryggis- og varnarmál ásamt þróunarsamvinnu — en allt er það efni í sérstaka umræðu hér í þingsal.

Ég heyri að um meginefni skýrslunnar er góður samhljómur hér, enda leiðarstefið að tryggja öryggi og varnir landsins og viðskiptahagsmuni og hafa í heiðri grundvallargildi mannréttinda, mannúðar og jafnréttis. Þrátt fyrir að mismunandi áherslur séu í einstökum málum líkt og við þekkjum — hér hefur t.d. verið rætt um aðild að Evrópusambandinu og þátttöku í Atlantshafsbandalaginu — er ekki sérstaklega verið að takast á um þessa þætti í utanríkismálaumræðu hversdagsins hér á landi. Í þessari ríkisstjórn líkt og í þeirri síðustu var samhljómur um þessi tvö mál þrátt fyrir ólík sjónarmið í stefnuskrá.

Um einstaka þætti skýrslunnar langar mig að koma inn á fáeina þætti. Það er mjög gott að fá betra aðgengi að verkefnum og störfum utanríkisþjónustunnar, m.a. þarf skýra skiptingu verkefna sendiráða og fleira. Það er nefnilega mikilvægt að þingmenn en einnig almenningur hafi gott aðgengi að skipulagi og starfsháttum þjónustunnar til að átta sig betur á þeirri umfangsmiklu vinnu sem þar fer fram víða og hvernig fjármunum er háttað.

Gaman er að sjá að markmiðum og verkefnum í skýrslu um Utanríkisþjónustu til framtíðar miðar áfram og gott að geta fylgst náið með framvindu þeirra verkefna sem miðað er að í framtíðarskýrslunni. Hún ber líka undirtitil með rentu, Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi. Það er einmitt síbreytilegi heimurinn sem utanríkisþjónustan þarf að breytast í takt við og þá tækniþróun sem er að verða hraðari en nokkru sinni fyrr. Þar má sjá áherslur utanríkisráðherra á heimasendiherra og áherslu á ný markaðssvæði, svo einhver dæmi séu tekin.

Það væri gaman að heyra aðeins nánar frá ráðherra um hlutverk heimasendiherra, hvernig hann sér það betur fyrir sér til framtíðar og hvernig hægt er að þróa það verkefni enn frekar.

Annars um efnisatriði skýrslunnar og starf ráðherra og ráðuneytis langar mig að fagna því sérstaklega að sérstök varnarmálaskrifstofa hafi verið endurvakin í ráðuneytinu og áhersla sé á að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum með þjóðaröryggisstefnuna að leiðarljósi. Versnandi horfur í öryggismálum og breytt öryggisumhverfi þýðir að enn frekar þurfi að setja varnarmál í forgang eins og ráðherra kom inn á. Þar kemur margt inn í, starf þjóðaröryggisráðs, samstarf Norðurlandanna og aukin framlög í málaflokkinn. Ég er ánægð með þá samstöðu sem er varðandi þessi mál, en auðvitað er virk þátttaka okkar í öryggismálum mikilvæg, líkt og annarra landa í Evrópu. Við getum lagt margt af mörkum í því samstarfi. Við getum talað máli jafnréttis og mannréttinda og viðskiptafrelsis og þátttaka okkar í afvopnunarmálum er einnig virk. Ég gleðst yfir því að Ísland verði gestgjafi fyrir ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins um afvopnun og gereyðingarvopn í haust.

Annað sem mig langar stuttlega að koma inn á er umræðan um EES-samninginn. Þátttaka okkar í því samstarfi hefur verið gríðarlega mikilvæg og er það enn. Það að gæta hagsmuna okkar og nýta okkur EES-samninginn með sem bestum hætti er ávallt viðvarandi og mikilvægt viðfangsefni og um það er góð umfjöllun í skýrslunni. Mikilvægt er að við pössum ávallt upp á hagsmuni okkar í þessu sambandi og er EES-samningurinn gríðarlega mikilvægur fyrir okkur að mörgu leyti. Við þurfum að standa vörð um hann og nýta okkur kosti hans.

Það er gaman að sjá nýja skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninginn, Gengið til góðs. Skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins. Þar koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar og áréttingar á ýmsu sem oft fer miður í umræðunni. Við höfum dregist aftur úr, eins og fram hefur komið hér í umræðu dagsins, í upptöku og innleiðingu ýmissa gerða, en það er auðvitað mikilvægt að sjónarmið Íslands komist fyrr að í ferli málanna. Þar er lykillinn hagsmunagæsla okkar við mótun löggjafar innan EES. Í skýrslunni er boðað átak, en jafnframt er utanríkismálanefnd nú að leggja lokahönd á breytingar á reglum um þinglega meðferð EES-mála með það að markmiði að auka áhrif Alþingis á undirbúning og mótun gerða þar sem leitast verður við að tryggja hagsmuni Íslands eins framarlega í lagasetningarferli Evrópusambandsins og unnt er. Það væri gaman að heyra aðeins frá ráðherra varðandi þessa vinnu, en þetta er vinna sem er að fara fram í þriðju utanríkismálanefndinni og við teljum að við getum klárað fyrr en seinna. Við erum auðvitað líka að velta fyrir okkur aðila þar úti til að löggjafarvaldið geti fylgt þessu enn frekar eftir.

Ég fer kannski örstutt hér inn á tvo aðra þætti meðan ég hef tíma til. Ég fagna því sérstaklega að heimasendiherra sé við störf í jafnréttismálum og að við séum leiðandi líkt og hefur komið fram hér í dag í þeim málum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að Ísland sé sterk rödd á alþjóðavettvangi og fyrirmynd í jafnréttismálum. Við eigum að vera óhrædd við að leiða þá umræðu, enda verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins fyrir árangur ríkja á sviði kynjajafnréttis nú í níu ár. En við eigum að halda áfram að vera leiðandi og miðla af reynslu okkar. Ísland hefur staðið vörð um jafnréttismál á öllum vígstöðvum. Það má nefna vettvang Sameinuðu þjóðanna hvað varðar þróunarsamvinnu. Það kemur fram í skýrslunni með ágætum hætti.

Við getum þó ávallt, líkt og í jafnréttismálunum sjálfum, gert betur, að enn meiri áhersla verði lögð á þennan sterka þátt Íslands á alþjóðavísu af okkur öllum. Þar getum við sérstaklega beitt okkur hvað varðar níu heimsmarkmiðin sem einnig er tekið á í skýrslunni. Ísland var þar í fararbroddi og beitti sér fyrir því að jafnréttismál væru bæði sérmarkmið og einnig sem hluti af öðrum markmiðum.

Þess vegna eigum við, og ég veit að við munum gera það, að fylgja því eftir að vera í fararbroddi og leiða og hvetja önnur lönd til að ná heimsmarkmiði fimm, um jafnrétti kynjanna, en einnig að nýta tækifærið og vera leiðandi í fleiri heimsmarkmiðum þar sem við erum framarlega og ættum að vera enn framar eins og í menntun fyrir alla.

Kynningarherferð verkefnisstjórnar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hefur farið vel af stað. Ég hlakka til að fylgjast með framvindu hópsins, stöðu markmiðanna og forgangsröðuninni hér á landi.

Þá langar mig örstutt að nefna netöryggismálin, líkt og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom ítarlega inn á áðan. Stefna ríkisins um net- og upplýsingaöryggi 2015–2026 sem var kynnt í lok apríl 2015 var byggð á víðtæku samráði ýmissa aðila í þjóðfélaginu. Stefnunni fylgdi áætlun um 16 aðgerðir fyrir árin 2015–2018 sem er mjög mikilvægt og spennandi að sjá hvernig fylgt verður eftir.

Síðan má nefna eflda getu til að verjast netógnum, bæði ríkis og almennings, áfallaþol upplýsingakerfa samfélagsins og aukinn viðbúnað til að við stöndumst samanburð upplýsingakerfa á Norðurlöndunum, að íslensk löggjöf sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur og skuldbindingar á sviði netöryggis og persónuverndar og lögregla búi yfir eða hafi aðgang að faglegri þekkingu, hæfni og búnaði til að leysa úr málum er varðar net- og upplýsingaöryggi, svo nokkur atriði séu tekin úr þessari vinnu. Það væri gaman að þetta fengi meira vægi, en það þarf einnig að ræða meira í utanríkismálanefnd.

Hæstv. forseti. Það eru fjölmargir aðrir þættir í skýrslunni sem gefa tilefni til meiri umræðu. Við höfum fengið gott tækifæri til að ræða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu við ráðherrann, sér í lagi í nefndinni, en einnig kom sérstök skýrsla út í fyrra. En það er gott að sjá tímalínuna og þróun hennar í skýrslunni og skipulag ráðuneytisins svo skýrt. Svo mætti einnig ræða hér stöðu okkar í fríverslun heimsins. Þar eru auðvitað fjöldamörg tækifæri, þau blasa við, sem við höfum verið að grípa undanfarið, en kannski væri gaman að heyra aðeins frá því hvað er efst á baugi varðandi fríverslun.

Mig langar að ljúka þessu með því að hvetja okkur öll og þingheim til að ræða hér oftar, fá tækifæri til þess, um utanríkismál í þessum sal án þess að ég ætli að lengja umræðuna hér í dag. En ég teldi það mjög mikið til bóta.