148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[16:09]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þetta. Ég held einmitt að talan sem hæstv. ráðherra nefndi, að rúm 13% af gerðum og tilskipunum frá Evrópusambandinu séu tekin upp í gegnum EES-samninginn, komi mörgum hverjum spánskt fyrir sjónir af því að umræðan um það hefur verið mjög mikið á skjön við raunveruleikann. Oft er talað eins og þetta sé mun meira þannig að ég held að þessi skýrsla og ítarlegri umræða um EES-samninginn og jákvæð áhrif hans og kosti sé af hinu góða. Við eigum að vera leiðandi í því hér á landi að passa upp á það og halda því til haga hvert við ætluðum og til hvers við ætluðumst af því að ganga inn í þetta samstarf og huga að þeim kostum sem við höfum tekið frá okkur og getum síðan nýtt okkur til framtíðar.

Síðan ætla ég að koma aðeins meira inn á viðskiptahagsmuni okkar og tækifærin sem eru víða til að efla okkur enn frekar. Þar held ég að Ísland sé í rosalegu öflugri stöðu, sér í lagi nú, til að bæta enn frekar samkeppnishæfni sína. Ég hlakka til að heyra síðara andsvar hæstv. ráðherra.