148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir með hv. samþingmönnum mínum um fyrirsjáanleika þess hvaða ráðherrar séu viðstaddir. Ég vil einnig almennt beina þeirri hugmynd til forseta að mögulega mætti hafa betur í huga hvað þingmenn sjálfir vilja spyrja um og þeir mættu vera hafðir meira með í ráðum um hvaða ráðherrar eru til staðar hverju sinni eftir því hvað er í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni, en þá með einhverjum fyrirvara þannig að þingmenn geti undirbúið sig svo við fáum sem mest út úr þessum umræðum og það sé einhver tilgangur með þessu öllu saman. Auðvitað gengur ekki að við fáum að vita með kortersfyrirvara hvaða ráðherrar eru hér til svara. Rétt eins og öðrum þykir mér hryggilegt að við höfum ekki fengið nægilegan tíma til að undirbúa þá ráðherrastöðu sem okkur er boðið upp á í dag.

Svo vil ég einnig undirstrika að ég man ekki til þess að beðið hafi verið um samþykki þingflokksformanna fyrir því að þingfundur skuli standa lengur í dag.