148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir þessar skýringar. Þó verð ég að lýsa furðu minni á því að á borði okkar allra er dagskrá, sem dreift var rétt fyrir fundinn, sem er ófullnægjandi, sem sýnir að enn eru inni liðir 2, 3 og 4, þ.e. kosningarnar, og umrædd skýrsla. Þegar farið er inn á heimasíðu þingsins er þar líka úrelt dagskrá.

Maður veltir fyrir sér: Hvernig eiga þingmenn að undirbúa sig og vera viðbúnir umræðu í þingsal svo að vel eigi að vera þegar þingheimur hefur ekki hugmynd um hvað ræða á og það getur bara breyst fyrirvaralaust? Hvort tveggja að mál séu sett á dagskrá og tekin út af dagskrá.

Ég velti líka fyrir mér varðandi skýrsluna sem nú átti að ræða: Er það svo, herra forseti, að þegar skýrslubeiðni er lögð fyrir ráðherra að ráðherra ráði því um hvað skýrslubeiðnin snýst? Ef þingmenn óska eftir skýrslu frá ráðherra, getur ráðherra þá komið (Forseti hringir.) í málið og skipt sér af því hvort skýrslan fái afgreiðslu inni í þingsal eða ekki? Er það þannig sem þetta á að virka?