148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki gert það að reglu að koma upp undir þessum dagskrárlið, en af því að hann heitir fundarstjórn forseta langar mig bara að hrósa fundarstjórn forseta sem ég held að sé í fullu samræmi við þingsköp. Við höfum oft talað um það hér að það væri gott að hafa meiri fyrirvara á málunum, en nú erum við búin að eyða næstum því hálftíma í að ræða það hvort eitthvað sé á dagskrá eða ekki á dagskrá og hvort fundur verði lengri eða ekki þegar hæstv. forseti hefur boðað að hann muni láta fara fram atkvæðagreiðslu síðar í dag um það hvort þingfundur megi standa lengur.

Svo bendi ég líka á að ef við spöruðum okkur þennan hálftíma værum við kannski komin af stað í dagskránni og þá kannski þyrfti þingfundur ekkert að vera lengri í kvöld.