148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Varðandi skýrslubeiðnina sem hér er til umræðu þá er það auðvitað þannig að til þess að hún komi sem skýrslubeiðni frá Alþingi þá þarf samþykki hér í þingsal. Ég geri ráð fyrir að forseti hafi tekið ákvörðun um að fresta afgreiðslu þessarar skýrslubeiðni í ljósi þess að það eru áhöld um það hvort verið er að beina skýrslunni til þess ráðherra sem málið heyrir undir eða ekki.

Ég held að það sé eðlilegt og menn þurfa ekkert að fara í einhverjar samsæriskenningar út af því. Það er eðlilegt að þeir hlutir séu skýrðir sérstaklega í ljósi þess að athugasemdir hafa komið fram um þann þátt. Það snýst ekki um að verið sé að koma með einhverjum hætti í veg fyrir að þær upplýsingar sem óskað er eftir komi fram heldur er spurningin að hverjum á skýrslubeiðnin að beinast. Frekar en að fara í atkvæðagreiðslu þar sem menn væru takast á um þetta þá hugsa ég að forseti hafi ætlað sér að fá skýrari mynd af þeirri niðurstöðu áður en til beinnar atkvæðagreiðslu kæmi í þingsal um það efni.