148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

línulagnir.

[15:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst til að svara aðeins varðandi vangaveltur um jarðstrengi, hvort þeir eigi við þarna og hvernig Landsnet horfi á það. Ég vil almennt segja að við höfum hér í þinginu þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar er því gert mjög hátt undir höfði að rannsaka eigi kosti okkar hvað varðar jarðstrengi. Það er eitthvað sem við höfum ekki gert áður, alla vega ekki með þeim hætti sem þarna er boðað. Mér finnst það nú skipta máli og mér finnst við með þeirri tillögu vera að teygja okkur til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður reifar hér og mér persónulega finnst skipta máli að gera. Auðvitað þarf að huga að því hvað er tæknilega raunhæft, hvað er raunhæft út frá kostnaði. Svo eru menn með mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að reikna út þann kostnað, hvað varðar líftíma og hvað það megi kosta til að hægt sé að réttlæta það o.s.frv. Þetta er alltaf sama sagan þegar við reynum að finna jafnvægi á milli efnahagslegra þátta, umhverfislegra og samfélagslegra. Við leggjum síðan mismunandi mat á það.

Almennt hvað varðar Landsnet get ég kannski ekki mikið meira sagt en að það þarf einfaldlega að fylgja leikreglum. Hvort ég muni beita mér sérstaklega í einstaka framkvæmd í einstaka máli þá er því til að svara að ég geri þá kröfu til annarra að þeir fylgi leikreglum og ég geri það þá sömuleiðis sjálf gagnvart mér og ráðuneytinu. Ég hef ekki fengið á borð til mín og hef ekki á borðinu að skoða það sérstaklega að beita mér sérstaklega í því máli sem hv. þingmaður nefnir hér.