148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

niðurskurður í fjármálaáætlun.

[16:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefði verið gott ef ráðherra hefði svarað örlítið þeirri spurningu sem að henni beindist. En ég verð að spyrja ráðherra út í þá erlendu borgara sem eru hér að óska eftir dvalarleyfi. Ekki er einu orði vikið að þeim stóra hópi í fjármálaáætlun, það er eingöngu verið að ræða þar um þá sem leita hér alþjóðlegrar verndar en ekki einu orði um þá sem eru að sækja hér um dvalarleyfi, ekki um ung börn sem fædd eru hér á landi, námsmenn, listamenn, íþróttahetjur eða farandverkamenn.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekkert talað um þennan hóp. Þar eru aðrir málaflokkar þar sem talað er um að framkvæma þjónustukönnun til þess að kanna hvernig tekst til í hinum ýmsu stofnunum. En einhverra hluta vegna er því algjörlega sleppt þegar kemur að erlendum borgurum. Og það á sama tíma og nýjar tölur Hagstofunnar sýna að 16,5% starfandi fólks á Íslandi, þeirra sem eru heldur betur að hjálpa okkur (Forseti hringir.) við að reisa efnahag landsins, eru í þeim hópi og að sá hópur fer sístækkandi.

Þess vegna spyr ég ráðherra: Er hæstv. ráðherra algjörlega sama um þá (Forseti hringir.) þjónustu sem veitt er hjá Útlendingastofnun?