148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stjórnarfrumvörp of seint fram komin -- beiðni um skýrslu.

[16:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er auðvitað ánægð með að hæstv. forseti ætli að skýra það með málefnalegum hætti hvers vegna ákveðið er að fresta því að bera hér undir atkvæði skýrslubeiðni. Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt ef hæstv. ráðherrar geta tafið slík mál með bréfaskriftum við forseta, en auðvitað veit ég ekki um innihald bréfsins sem hæstv. forseti hefur sagt okkur frá hér í dag að sé ástæðan fyrir því að málinu er frestað. En væntanlega eru þarna mjög málefnalegar og gildar ástæður fyrir frestuninni, því að auðvitað getum við, alþingismenn, ekki unað því að hæstv. ráðherrar geri, með einhverjum skilaboðum og bréfaskriftum til forseta, það að verkum að skýrslubeiðnir séu ekki bornar hér undir atkvæði. Það er náttúrlega algjörlega óásættanlegt. En ég (Forseti hringir.) vænti þess að í bréfinu séu þá mjög ríkar ástæður sem við getum fallist á að séu réttlætanlegar til þess að fresta slíku máli.