148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[16:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagt frumvarp. Mig langar til að undirstrika að eitt af markmiðum frumvarpsins er að tryggja samráð og samvinnu við sveitarfélög um skipulag strandsvæða og samræmi þess við skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum.

Í 4. gr. frumvarpsins segir að svæðisráð skuli bera ábyrgð á gerð strandsvæðaskipulagningar. Í 5. gr. sem snýr að svæðisráðunum sýnist mér að áhrif sveitarfélags séu frekar léttvæg og skipulagsvaldið sé fært frá heimamönnum. Ef það eru fleiri en þrjú sveitarfélög eru til dæmis bara tveir fulltrúar frá sveitarfélögunum.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um þessar hugmyndir sem hafa verið um að gerðar yrðu tilraunir fyrir vestan og austan, að það yrði tilraun hjá þessum sex sveitarfélögum, til að þau myndu standa saman við að koma að þessum svæðisráðum. (Forseti hringir.) Hvernig er það hugsað? Ég hef ekki endilega trú á að sveitarfélögunum sé gefið nægilegt svigrúm í þessu.