148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[16:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Því er til að svara að það er kannski ekki rétt að segja að skipulagsvaldið sé fært frá heimamönnum vegna þess að þeir hafa það ekki í dag. Það sem þarna er um að ræða er skipulagsgerð á því sem við getum kallað haf almennings, sem er utan netlaga; það er í raun verið að veita sveitarfélögunum aðkomu að skipulaginu. En hins vegar eru þau ekki í meiri hluta. Það er alveg rétt að ef sveitarfélögin eru mjög mörg hafa þau færri fulltrúa og þá er hugmyndin að þau komi sér saman um að skipa fulltrúa númer tvö eins og þetta er sett upp í frumvarpinu.