148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[16:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að sveitarfélögin komi að þessu að eins miklu leyti og mögulega er hægt. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Útfærslan, eins og hún er lögð fram í frumvarpinu, gerir ráð fyrir meiri hluta fulltrúa ráðherranna en ekki sveitarfélaganna. Erfitt er að segja hvernig þetta mun takast, en ég get tekið undir það með þingmanninum að það er mjög æskilegt að þarna verði víðtækt samráð innan svæðisráðsins, enda er það meiningin og er skrifað inn í lögin að slíkt eigi að vera. Það er náttúrlega æskilegast að um þetta skapist sem víðtækust sátt, um þau verkefni sem þetta skipulag þarf að ná utan um. Ég held að allir séu sammála um að löggjöfin sem slík er gríðarlega mikilvæg. Þarna er aðkoma sveitarfélaganna klárlega tryggð, en mér er vel kunnugt um skoðanir margra sveitarfélaga, að þau myndu gjarnan vilja hafa ríkari aðkomu að þessum málum. Það kemur væntanlega upp hjá nefndinni að skoða það líka.