148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[16:46]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að halda örlítið áfram með það sem hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir nefndi, þ.e. 5. gr. frumvarpsins. Í henni kemur fram, eðlilega, að samþykki meiri hluta fulltrúa svæðisráðs þurfi til að mál sem eru til afgreiðslu teljist samþykkt, þó þannig að allir fulltrúar ráðuneyta í svæðisráði séu samþykkir afgreiðslunni.

Í umsögn sinni um fyrra frumvarp taldi Samband íslenskra sveitarfélaga það, með leyfi forseta, „óeðlilegt að fulltrúa ríkisins í svæðisráði sé áskilið neitunarvald“. Út af ákvæðinu fær frumvarpið þau yfirráð að störf svæðisráða fari ekki fram á jafnréttisgrundvelli sem er afar óheppilegt og raunar með öllu óeðlilegt með tilliti til þeirra staðbundnu hagsmuna sem fulltrúar sveitarfélaga eiga að tryggja með setu sinni í svæðisráði.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til þessa hluta 5. gr. og hvort hann telji að e.t.v. væri hægt að finna einhverja málamiðlun hvað þetta varðar.