148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[16:51]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heilshugar undir mikilvægi þess að unnið verði skipulag fyrir haf- og strandsvæði og til þess þarf að setja lög um þá vinnu. Eins og fram hefur komið er ekki einhugur um þetta frumvarp og hefur ekki verið síðustu ár og einkum hefur komið gagnrýni frá sveitarfélögunum. Þess vegna fagna ég því að ráðherra sé opinn fyrir meiri aðkomu sveitarfélaganna ef leið finnst til að útfæra það.

Ég fagna líka ákveðnum breytingum frá fyrra frumvarpi, þar á meðal ákvæði um að gerð strandsvæðisskipulags fyrir bæði Austfirði og Vestfirði hefjist í haust. En þá er ég líka strax búin að fá spurninguna: Hvenær gæti þá komið að utanverðum Eyjafirði? Mig langar að beina þeirri spurningu til ráðherra.

Eins langar mig að spyrja hvort ráðherra þekki hvernig og hvort nýtingaráætlanir sem sveitarfélögin hafa verið að láta vinna geti nýst í þessari vinnu.