148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[17:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og fagna framkomu þessa frumvarps. Ég held að það sé löngu tímabært að við horfum til þeirra svæða sem gegna núna öðru og veigameira hlutverki í mörgum sveitarfélögum og eiga eftir að gera í komandi framtíð en við höfum vanist.

Það er þó vissulega svo að þau sveitarfélög sem hér um ræðir hafa á undanförnum árum, áratugum og öldum byggt afkomu sína á nærsvæði sínu í hafinu. Þannig byggðust þau upp og þar hefur lífsbjörgin gjarnan legið. Nú er komið nýtt afl sem farið er að skipta verulega miklu máli og mun eflaust skipta mjög miklu máli í framtíðinni, sem er fiskeldið. Á grundvelli þessa hefðarréttar, ef við getum orðað það svo, sem sveitarfélögin hljóta að eiga orðið á nærhafi sínu finnast mér þau sjónarmið vera eðlileg sem þar hafa fram komið, um að skipulagsvaldið verði á vettvangi sveitarfélaganna. Það kemur til af mörgum ástæðum. Ein er til að mynda sú, sem þarf þá að samræma í löggjöf, að þarna eru orðin mikil mannvirki til staðar sem er að mínu viti eðlilegt að beri einhvers konar gjöld, ígildi fasteignagjalda sem eru greidd af öllum mannvirkjum sem eru reist á hafnarsvæðinu eða í viðkomandi bæjarfélagi en ekki þarna. Íbúarnir í þessum sveitarfélögum hafa þessa starfsemi fyrir augunum alla daga. Þeir byggja lífsafkomu sína á þessu svæði og á þessari atvinnustarfsemi eins og annarri. Það er ákveðið ósamræmi í því þegar við höldum svo ríkum skipulagsrétti sveitarfélaganna á sínum svæðum að í ljósi breyttrar nýtingar á nær hafsvæðinu, að það sé með einhverjum hætti undanskilið.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að löggjöf sem þessari sé tekið með þeim fyrirvara af hálfu sveitarfélaganna sem fram hefur komið. Á undanförnum nokkuð mörgum árum, eða allt frá því að lögin um mat á umhverfisáhrifum voru sett fram, hefur mörgum verkefnum, sem eru brýn, mjög brýn, sérstaklega í augum heimamanna, haldið í einhvers konar gíslingu. Endalausar kærur koma fram jafnvel á síðustu stundu. Þar með verða tafir og gríðarlegur samfélagslegur kostnaður fyrir aðila veldur því að mikil tortryggni ríkir gagnvart allri löggjöf í kringum þessi mál.

Það endurspeglar eflaust einnig viðbrögð sveitarfélaganna sem hér um ræðir við þessu lagafrumvarpi og þessari leið þar sem þau treysta því ekki að þau muni hafa einhver raunveruleg áhrif þrátt fyrir þá aðkomu sem er gert ráð fyrir að þau muni eiga að málum í gegnum svæðisráðin, þegar meiri hlutinn liggur annars staðar og menn hafa í raun neitunarvald.

Þarna eru svo gríðarlegir hagsmunir undir að við hljótum að horfa til þess að ábyrgt fólk í sveitarstjórnum og íbúar á þeim svæðum sem undir liggja geti farið með það vald eins og annað skipulagsvald í sínu nágrenni. Það þýðir ekki að allt eigi að vera frjálst í þessum efnum og að líða eigi að óvarlega verði farið í einhverjum tilfellum. Yfir það þurfum við auðvitað að koma einhverjum böndum.

Svo er þriðja atriðið í þessu sem veldur líka tortryggni, þ.e. aðild umhverfissamtaka að þessum svæðisráðum. Ég vil taka undir með þeim sem nefnt hafa þann þátt mála hér. Ég sé ekki rökin fyrir aðild þeirra frekar en margra annarra hagsmunaaðila. Ég var í forystu fyrir björgunarsamtökin í mörg ár. Af hverju eiga ekki björgunarsveitirnar aðild að svæðisráðunum? Ég held að ef við förum út í slíka sálma sjái ekki fyrir endann á þeim ágreiningi sem það gæti valdið, enda tryggjum við rétt þessara samtaka, almennings til þess að eiga aðkomu að málum í gegnum þær kæruleiðir sem við búum um í lögum.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að halda langa ræðu um það. Eins og ég hef áður sagt, og ekki bara á þessu þingi, um mál sem við náum ekki að koma fram fyrr, hef ég fullan skilning á því að hæstv. ráðherra hafi ekki getað verið fyrr á ferðinni með málið. Það er ekki við hann að sakast í þeim efnum. Það er í mörg horn að líta þegar menn eru að byrja á nýjum vettvangi og þann skilning eigum við að hafa gagnvart allri ríkisstjórninni. Við eigum öll að líta í eigin barm þegar við gagnrýnum það, einhverjir hv. þingmenn, að málin komi seint fram. Það er auðvitað bara eðlilegt miðað við þær aðstæður sem skapast hafa. Það þýðir aftur á móti líka að við í meiri hlutanum og ráðherrar í ríkisstjórninni verða að sætta sig við að í mörgum tilfellum er mælt fyrir málum, þau fara til þinglegrar meðferðar og leitað verður umsagna, en þau munu ekki endilega klárast í vor. En það er ávinningur af því að hafa lagt þau fram, það er ávinningur af því hefja hina þinglegu meðferð og styttir enn frekar málsmeðferðartíma strax í haust og flýtir fyrir því að hægt sé að hefja vinnu við málin auk þess sem hægt er að nota sumarið til þess að fara yfir þær athugasemdir sem borist hafa og reyna að ná víðtækari sátt um þau mál sem eru með þessum hætti.