148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[17:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim tveimur hv. þingmönnum sem tóku hér til máls kærlega fyrir þeirra málefnalegu og góðu innlegg. Ég fagna því í fyrsta lagi að almenn sátt er um nauðsyn þess að setja á ný heildarlög um haf- og strandsvæði eða haf- og strandsvæðisskipulag.

Ég ætla rétt að bregðast við því sem hér hefur komið fram. Ég tel mig vera búinn að bregðast við því sem snýr að aðkomu sveitarfélaganna. Í ljósi athugasemdar hv. þm. Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, þegar hún nefndi bls. 36 í greinargerð, vil ég benda á að því var ekki beint gegn sveitarfélögunum með einum eða neinum hætti, eins og ég skil þetta. Það var ekki verið að draga úr áhuga þeirra á að vernda svæði. Enda þekki ég það ágætlega sjálfur, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum, að þar er víða áhugi á að vernda firði og önnur svæði.

Varðandi umhverfisverndarsamtök er ástæðan fyrir því að þeim er gefinn áheyrnarfulltrúi í svæðisráðunum sú að reyna að draga úr spennu og ágreiningi þannig að frekar verði komið í veg fyrir að mál endi í kæruferli. Ég vil þó benda á, varðandi kæruferli í þessu tilfelli, að skipulagið sem slíkt er ekki kæranlegt, því að þetta endar með staðfestingu ráðherra. Hins vegar myndu ýmsar leyfisveitingar eiga sér stað á grundvelli skipulagsins, eins og til fiskeldis og annars, sem gætu verið kæranlegar. Sú hugsun að setja fulltrúa umhverfissamtaka þarna er til að reyna að tryggja aðkomu þeirra fyrr í ferlinu. Ég held að við höfum öll hér inni verið sammála um að bæta þyrfti þá aðkomu, einmitt til þess að draga úr þeirri spennu sem verið hefur.

Það er alveg réttmætt að benda á hvort fleiri ættu þá ekki að eiga aðild, atvinnuvegirnir, íbúasamtök og þar fram eftir götunum. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta gæti átt við um íbúasamtök og mér finnst það mjög áhugaverð tillaga; eins og ég segi hef ég sjálfur velt því fyrir mér. Það er hins vegar ákveðinn grundvallarmunur á umhverfisverndarsamtökum og samtökum þeirra atvinnuvega sem þarna er um að ræða. Vegna þess að atvinnuvegirnir hafa að markmiði fjárhagslegan ávinning af þeim athöfnum sem þeir ráðast í á þessum skipulagssvæðum en umhverfisverndarsamtök hafa það ekki. Þau hafa almannahagsmuni að leiðarljósi sem eru umhverfis- og náttúruvernd.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, hvað ef mörg samtök vilja fá fulltrúa, þá er ákveðinn vettvangur innan ráðuneytisins, samráðsvettvangur félagasamtaka, umhverfisverndarsamtaka, sem venjulega er beðinn um að koma með tilnefningar í ráð og nefndir. Ég geri ráð fyrir því að sá háttur yrði hafður á.

Aðeins meira varðandi skipulagsvaldið. Ég lýsi því aftur yfir að ég er mjög tilbúinn til að það verði skoðað hjá nefndinni hvernig hægt sé að mæta sveitarfélögunum betur. Ég heyri og finn að mikil vilji er til þess á meðal þingmanna. Ég vil þó benda á að hér er miðað við þá línu sem gildir í dag hvað varðar sveitarfélagsmörkin; skipulag sveitarfélaganna, skipulagsumdæmi sveitarfélaganna í dag, nær að netlögunum. Síðan tekur við strandsvæðisskipulagið sem hér er til umræðu og það er í dag ekki innan skipulagslögsögu sveitarfélaganna og vissulega er verið að veita sveitarfélögunum aðgang að því. En aftur: Ég er mjög tilbúinn til að sjá hvort hér sé hægt að ná frekari lendingu sem myndi auka aðkomu sveitarfélaganna.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að það er slæmt að þessi mál séu að koma svona seint fram en vinnan við þau tók bara ákveðinn tíma eins og þingmaðurinn lýsti. Ég vil nefna í því tilfelli að í mínu ráðuneyti var fyrirhugað að koma einhverjum nýjum málum hér inn á þessu þingi og við komum átta málum að sem ég held að geti talist ágætt.

Mig langar í lokin að draga aðeins saman mikilvægi þess að við vinnum þetta mál bæði hratt og vel og náum helst að klára það í vor. Það hefur verið kallað eftir þessu af sveitarfélögunum og af atvinnuvegunum, sem eiga þarna hagsmuna að gæta, í mjög langan tíma. Það er mjög mikilvægt að við getum ráðist í gerð strandsvæðisskipulags fyrir bæði Austfirði og Vestfirði á komandi hausti. Þannig að ég óska nefndinni velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum við að vinna að áframhaldandi framgangi þessa máls. Ég tel að það verði til mikilla framfara fyrir þessa mikilvægu atvinnuvegi og þau mikilvægu verndarsjónarmið sem gilda á þessum svæðum. Ég vil þar kannski ekki síst nefna fiskeldið; ég tel mjög mikilvægt að þessi lög nái fram að ganga til að við náum betur utan um heildarskipulag á þessum svæðum.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir mjög góða umræðu og óska nefndinni velfarnaðar í störfum sínum.