148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[17:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Frumvarpið byggist á tillögu að frumvarpi sem samið var af starfshópi sem falið var að vinna frumvarp um breytingu á ofangreindum lögum um mat á umhverfisáhrifum vegna innleiðingar á tilskipun 2014/52/ESB. Innleiðing tilskipunarinnar kallar einnig á tilteknar breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, og lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Frumvarpið var birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins til kynningar og athugasemda og hafa nokkrar breytingar verið gerðar í kjölfar framkominna athugasemda. Um samráð og framkomnar athugasemdir er fjallað í 5. kafla greinargerðar frumvarpsins.

Tilskipun 2014/52/ESB tók gildi 16. maí 2017. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur hafið málsmeðferð gegn Íslandi þar sem tilskipunin hefur enn ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Íslandi hefur borist rökstutt álit frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem fram kemur að höfðað verði mál fyrir EFTA-dómstólnum ef Ísland lýkur ekki innleiðingu tilskipunarinnar.

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem ætlað er að auka skýrleika, gæði og gagnsæi umhverfismats framkvæmda. Því er lagt til að í ferli matsins verði gert ráð fyrir ítarlegri kynningu framkvæmdar en nú er. Kveðið er á um að framkvæmdir séu kynntar með rafrænum hætti og að Skipulagsstofnun kynni jafnframt tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu framkvæmdaraðila á vefsíðu sinni. Auk þess eru lagðar til breytingar á lögunum sem er ætlað að einfalda stjórnsýsluna eins og heimild til sameiningar á ferlum er varða umhverfismat framkvæmda og umhverfismat skipulags.

Í frumvarpinu er lögð til sú nýbreytni að gerð verði krafa um sérfræðiþekkingu við gerð og yfirferð gagna umhverfismats, annars vegar að framkvæmdaraðili tryggi að frummatsskýrsla sé útbúin af til þess hæfum sérfræðingum og hins vegar að Skipulagsstofnun búi yfir eða hafi aðgang að nauðsynlegri sérfræðiþekkingu við yfirferð gagna. Einnig er í frumvarpinu að finna kröfu um ítarlegri upplýsingar í frummatsskýrslu og matsskýrslu.

Til að auka gagnsæi og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra er í frumvarpinu lagt til að sveitarstjórn feli öðrum aðila innan stjórnsýslu sveitarfélagsins töku fullnaðarákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar þegar sveitarfélagið er sjálft framkvæmdaraðili.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæði laganna sem fjallar um matsskýrslu. Lagt er til að leyfisveitanda verði skylt að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar í heild eða að hluta ef umsókn um leyfi fyrir framkvæmdinni berst leyfisveitanda eftir að fimm ár eru liðin frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir.

Í núgildandi lögum er miðað við að leyfisveitandi þurfi að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða eigi matsskýrslu ef framkvæmdir hafa ekki hafist innan tíu ára. Sá tími hefur þótt of langur. Tilskipun 2014/52 gerir þá kröfu að við útgáfu leyfa til framkvæmda þurfi að ganga úr skugga um að umhverfismat framkvæmdar eigi enn við eða sé, með leyfi forseta, „up to date“ eins og segir í tilskipuninni. Til að uppfylla þessa skyldu er aðildarríkjum heimilt að setja tímamörk á umhverfismat framkvæmda. Rétt þykir að miða við fimm ára gildistíma umhverfismatsins þar sem reynslan sýnir að í flestum tilvikum sé búið að veita framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd þegar fimm ár eru liðin frá umhverfismati framkvæmdarinnar. Auk þess hafa þær beiðnir sem Skipulagsstofnun hafa borist um endurupptöku umhverfismats í flestum tilvikum varðað umhverfismat sem hefur verið um og yfir fimm ára gamalt. Einnig má benda á að í frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 106/2000, sem varð að lögum nr. 74/2005, var upphaflega lagt til að miðað yrði við sex ár hvað varðar möguleika á endurskoðun umhverfismats. Tíminn var hins vegar lengdur í tíu ár í meðförum þingsins á sínum tíma. Eins og áður segir hefur reynslan sýnt að sá tími getur í mörgum tilvikum verið of langur og er talið rétt að miða við fimm ár eins og áður sagði. Var brugðist við athugasemdum í samráðsferli, en drög að frumvarpinu gerðu ráð fyrir að þessi tími væri þrjú ár. Hann var sem sagt lengdur í fimm ár í meðförum ráðuneytisins eftir að umsagnir bárust. Talið er að framangreind breyting geti leitt til fækkunar kæra á leyfum til framkvæmda þar sem uppruna slíkra kærumála má oft rekja til þess að umhverfismatið er ekki talið eiga lengur við, þ.e. orðið úrelt.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að sömu tímamörk, þ.e. fimm ár, skuli eiga við um þær framkvæmdir sem ákvörðun hefur verið tekin um að séu ekki matsskyldar. Um nýmæli er að ræða þar sem ekkert slíkt ákvæði er að finna í núgildandi lögum. Ef umsókn um leyfi fyrir framkvæmd berst eftir að fimm ár eru liðin frá því að ákvörðun lá fyrir um að hún skuli ekki vera matsskyld skal málsmeðferð því fara fram að nýju. Í frumvarpinu er samhliða lagt til að gildistími framkvæmdaleyfa, sem kveðið er á um í skipulagslögum, verði lengdur úr einu ári í tvö. Það gefur framkvæmdaleyfishafa aukið svigrúm til að hefja framkvæmd og með því er komið til móts við athugasemdir um styttingu á tíma er varðar ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu úr tíu árum í fimm ár. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að þegar sótt er um leyfi vegna framkvæmda, sem þegar hafa sætt umhverfismati, muni ákvæði eldri laga um endurskoðun matsskýrslu halda gildi sínu í þrjú ár frá gildistöku nýrra laga.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að gerðar verði ítarlegri kröfur til leyfisveitanda við útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda. Leyfisveitanda ber að leggja álit Skipulagsstofnunar, um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, til grundvallar við útgáfu leyfis. Honum ber að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og skal hann rökstyðja sérstaklega í leyfinu ef vikið er frá niðurstöðu álitsins. Einnig er kveðið með ítarlegri hætti á um eftirlit leyfisveitanda með framfylgd framkvæmdaraðila á ákvæðum um mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmdar í leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd.

Í frumvarpinu er að finna þau nýmæli að heimilt verður fyrir Skipulagsstofnun að leggja stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila ef hann hefur hafið framkvæmd án þess að meta umhverfisáhrif hennar eða án þess að tilkynna hana til ákvörðunar um matsskyldu. Einnig verður stofnuninni heimilt að leggja stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila ef hann hefur veitt stofnuninni rangar upplýsingar um framkvæmd eða umhverfisáhrif hennar. Við samningu frumvarpsins var horft til skýrslu nefndar forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum, dagsettrar 12. október 2006 er fjallaði um stjórnsýsluviðurlög, og til efnalaga, nr. 61/2013.

Einnig er kveðið með skýrari hætti en í núgildandi lögum á um þá skyldu framkvæmdaraðila að gera ávallt grein fyrir raunhæfum valkostum sem hann hefur kannað og borið saman með tilliti til umhverfisáhrifa. Auk þess skal framkvæmdaraðili tilgreina ástæður fyrir aðalvalkosti með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Með samþykkt frumvarpsins verður heimilt að sameina skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdar við skýrslugerð um umhverfismat skipulagstillögu samkvæmt skipulagslögum og skýrslugerð um umhverfismat áætlana. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Samhliða breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum er lögð til breyting á skipulagslögum og lögum um umhverfismat áætlana. Einnig verður samkvæmt frumvarpinu heimilt að sameina umhverfismat sem skylt er að gera samkvæmt öðrum lögum vegna leyfisveitinga til einstakra framkvæmda umhverfismati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framangreindar breytingar eru taldar geta leitt til sparnaðar á tíma og fjármunum og einfalda stjórnsýslu í kringum mat á umhverfisáhrifum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýjum kafla um inntak mats á umhverfisáhrifum. Lagt er til að tilgreint verði í sérstöku ákvæði allt ferli mats á umhverfisáhrifum. Þar er hvert skref tiltekið sem hefst á gerð og afgreiðslu matsáætlunar og lýkur á að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum er lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Einnig er í kaflanum kveðið á um efni mats á umhverfisáhrifum sem kemur í stað skilgreiningar á hugtakinu umhverfi.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði er varða meðal annars heimild til framlengingar á tímafrestum, undanþágur frá mati á umhverfisáhrifum, ákvæði er varðar takmarkanir á upplýsingagjöf og breytingu á ákvæði er varðar mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri. Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á 2. viðauka laga nr. 106/2000 um þau atriði sem horfa þarf til við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar. Breytingarnar eru í samræmi við þær breytingar sem gerðar eru með tilskipun 2014/52 á viðauka III í tilskipun 2011/92.

Að lokum er vert að nefna að ég hef ákveðið að fara í heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum og geri ég ráð fyrir að sú vinna hefjist á þessu ári. Við þá endurskoðun þarf sem dæmi að líta sérstaklega til einföldunar á viðmiðunarmörkum við ákvörðun um matsskyldu, hverjir skuli vinna umhverfismatið og hvort einfalda megi vinnu við matsáætlun svo að einhver atriði séu nefnd.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.