148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[17:55]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott innlegg hér. Það er alveg hárrétt að okkar bíða mörg verkefni og ég held að þetta sé eitt af mikilvægari verkefnunum sem bíða í framhaldinu. Það hófst vinna í ráðuneytinu í október sl. ef ég man rétt, áður en ég kom inn í ráðuneytið, þar sem unnið er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í náttúruverndarlögunum til að reyna að skýra betur almannaréttinn með tilliti til skipulagðrar ferðaþjónustu þar sem reynt er að greina á milli þess þegar um er að ræða Jón og Gunnu, ef ég má komast þannig að orði, mig og þig, mig og hv. þingmann, ég biðst afsökunar, sem ferðast með tilliti til þessa aldaforna réttar landsins, og síðan þegar ferðamenn ferðast í skipulögðum hópum. Ég vonast til að lagt verði fram frumvarp þessa efnis í haust þar sem reynt verður að taka á þessu þar sem á sama tíma verður reynt að halda utan um þennan rétt almennings til að geta farið um land sitt, miðað við þau lög sem í landinu gilda um almannarétt, og jafnframt að koma þessum málum í betri farveg hvað varðar skipulagðar ferðir.

Ég vil nefna í því samhengi líka að það þarf að mínu mati að gera breytingar sem auka almannarétt eftir breytingar sem urðu 2015 á lögunum og var kannski geymt samkvæmt ákvörðun umhverfis- og samgöngunefndar á sínum tíma. Ég er vel meðvitaður um að þessum málum þarf að sinna vel og mun reyna að gera það af kostgæfni.