148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[18:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar eignarhald þegar kemur að náttúruvernd held ég að við getum horft til ýmissa leiða, satt best að segja. Ég held að það sé mikilvægt að áfram sé land í eigu ríkisins sem við erum að vernda, en ég bendi líka á að segja má að náttúruvernd sé eitt form nýtingar, ekki bara fyrir ferðaþjónustu heldur líka fyrir upplifun fólks og útivist. Svo má líka tala um vernd náttúrunnar sjálfrar vegna.

Í náttúruverndarlögunum er gert ráð fyrir því að það sé hægt að semja við einstaka aðila um umsjón svæða þannig að kannski má segja að nú þegar sé hægt að ganga til slíks.

Ég get líka nefnt Vatnajökulsþjóðgarð þar sem einstaka landeigendur gera samning við þjóðgarðinn. Þeirra svæði verður í raun innan hans. Þeir aðilar eru þá að sjálfsögðu oft með einhverja starfsemi, gjarnan ferðaþjónustu eða eitthvað slíkt.

Síðan er afskaplega áhugavert atriði sem hv. þingmaður kom inn á varðandi jarðir ríkisins. Maður veltir fyrir sér umsjón með þeim. Umsjón náttúruverndarsvæða er afskaplega dreifð í dag, er hjá Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði, við erum með sérlög um Breiðafjörð og sérlög um Mývatn og Laxá sem er reyndar stýrt frá Umhverfisstofnun. Ætti jarðnæði ríkisins að eiga heima undir einhverri einni stofnun eða einhverri einni stjórn? Þarna mætti bæta inn þjóðskógunum, landgræðslusvæðum o.s.frv. En þetta eru framtíðarpælingar sem væri mjög gaman að ræða við hv. þingmann í góðu tómi.