148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[18:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Fyrir mér er þessi gjaldaákvörðun mjög einföld. Það er í sjálfu sér mjög einfalt að leggja á annaðhvort komu- eða brottfarargjald, t.d. þúsund kall á haus, á hvern einasta farmiða til Íslands, hvort sem hann er í flugi, á ferju, á skemmtiferðaskipi. Myndi þetta meiða einhvern? Hugsanlega þá sem koma hér á ódýrustu flugfargjöldunum, en fyrir aðra myndi þetta ekki muna neinu.

Á sínum tíma átti ég tal við aðila sem selja ferðir til Íslands og spurði hvort slík gjaldtaka myndi skemma. Mér var sagt: Nei, ef gjaldtakan er einföld er ekkert mál að selja hana útlendingum.

Sjálfum datt mér alltaf í hug hér í denn, og hefur dottið í hug enn og kannski legg ég fram frumvarp um það, að þetta gjald, þessi þúsund kall, ætti hugsanlega að heita náttúrugjald og það væri hægt að selja ferðamönnum, sem hingað koma, þá gjaldtöku með þeim orðum að í sjálfu sér sé Ísland eins og einn risastór þjóðgarður og að það gjald sem þar yrði tekið yrði notað til að vernda íslenska náttúru og byggja upp almennilega aðstöðu fyrir ferðamenn.

Á sínum tíma, þegar gistináttagjald var ákveðið hér á Alþingi fyrir margt löngu, hundrað kall á haus, átti það að skaffa fyrsta árið 320 milljónir, fór niður í 80; mjög erfitt að innheimta og gistináttagjaldið var það sama hérna úti á horni, á hóteli sem kostar kannski 70 þús. kall nóttin, og í tjaldi inni í Laugardal. Flókin innheimta, erfið, dýr. Við þurfum ekki svoleiðis. Við þurfum bara einfalda innheimtu sem færir okkur þær tekjur sem nauðsynlegar eru.