148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[18:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Sú þingsályktunartillaga sem við fjöllum hér um, um stefnumarkandi landsáætlun, er mikilvæg. Ég er ekki alveg sammála öllu því sem þar segir, enda getum við nálgast náttúruvernd frá ýmsum hliðum. Við getum talað um hana frá hinni siðferðilegu hlið, þ.e. um þá skyldu okkar að skila landinu til næstu kynslóðar í a.m.k. ekki verra ástandi en við tókum við því. Við getum líka verið á tilfinningalegum nótum og vísað til fegurðar, hins villta og ósnortna, gjöfulla lax- og silungsveiðiáa sem ég hef fengið að njóta frá því að ég var lítill drengur, eða víðáttu hálendisins sem ég er svo gæfusamur að njóta á hverju einasta ári, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, eða frá lýðheilsu eða áherslu á heilbrigt umhverfi og aðgang að heilnæmu lofti, vatni, matvælum o.s.frv.

En við getum líka litið á náttúruvernd út frá öðrum sjónarhóli, hinum efnahagslega. Ég hef hægt og bítandi sannfærst um og skilið æ betur að náttúruvernd er eitt stærsta efnahagsmálið sem við okkur blasir. Þetta er stórt efnahagslegt verkefni. Þetta eru mikilvæg efnahagsleg mál, þ.e. náttúruverndin sem slík er ágætlega arðbær ef við viljum bara setja krónu og aura á allt. Út frá hagfræðinni er hún skynsamleg, þótt ekki sé af öðrum ástæðum. Við getum sagt að náttúruverndin og arðsemin tvinnist í eitt, hjálpi okkur að styðja við einmitt áætlun af þessu tagi þó að við getum kannski deilt um einstaka liði í henni.

Það vill svo til að ég hef á undanförnum árum sótt æ meira í smiðju Birgis heitins Kjarans, þingmanns, rithöfundar, útgefanda, hagfræðings og afa Birgis Ármannssonar, hv. formanns þingflokks okkar Sjálfstæðismanna, en í apríl 1970 hafði hann framsögu um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga. Boðskapur hans var ekki aðeins tímabær fyrir 48 árum, hann á fullt erindi til okkar í dag. Þá eins og nú gerðu menn sér vonir um að Ísland gæti orðið ferðamannaland og myndi skjóta einhverjum stoðum undir fremur fábreyttan efnahag okkar Íslendinga sem treystum fremur á fiskinn og síðan var komið eitt álver suður í Straumsvík. Þá var fjöldi erlendra ferðamanna 60.000 á ári, en Birgir tók undir að ferðaþjónustan gæti orðið arðbær, arðvænleg eins og hann kallaði það, en hann var með varnaðarorð. Með leyfi herra forseta vil ég fá að vitna í það sem Birgir sagði í framsöguræðu:

„En ferðamannastraumur til Íslands verður skammvinn tekjulind, ef ferðalangarnir fá ekki óskir sínar uppfylltar, en þær eru ekki einungis sæmilegur gistiaðbúnaður, heldur öllu fremur að sjá óspillt eyland, eins og Ísland er.“

Birgir hafði nefnilega trú á því að hægt væri að gera Ísland að ferðamannalandi og að sú tekjulind, eins og hann orðaði það, gæti orðið jafn arðbær eða arðbærari en stóriðja sem þá var búin að starfa hér í nokkur ár. Sá maður hafði rétt fyrir sér. Mikil var framsýni Birgis Kjarans og hefðum við margir sjálfsagt átt að leggja betur eyrun við þegar hann talaði.

Það var ekki fyrr en ári síðar sem ný náttúruverndarlög náðu fram að ganga.

Ég held að það hafi líka verið rétt sem Birgir benti á, eins og hann sagði ári síðar í þessum sal, að við þurfum að koma á ákveðnum umgengnisreglum fyrir jafnt innlenda sem erlenda ferðamenn í sambandi við náttúru Íslands. Eins og hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„… og við þurfum líka að sjá um það, að ferðafólkið, bæði innlent og erlent, njóti hæfilegrar aðstöðu. Það er ágætt að friða lönd og það er ágætt að stofna þjóðgarða, en samtímis skulum við gera þetta þannig, að fólkið hafi þarna greiðan aðgang og aðstaða sé sköpuð hvað hreinlæti og aðra hluti snertir, sem nauðsynleg er.“

Þetta var fyrir tæpum 50 árum, herra forseti. Þessa ræðu hefði eins verið hægt að halda hér í dag og það er þess vegna sem ég vitna í hana.

Eins og ég sagði áðan hygg ég að æ fleiri Íslendingum sé að verða ljóst hve arðvænleg náttúruvernd getur verið. Við eigum að sinna náttúruvernd auðvitað vegna hennar sjálfrar, af tilfinningalegum ástæðum og siðferðilegum, bara til að skila landinu í jafn góðu eða helst betra ástandi en við fengum það eins og ég vék að í upphafi. Það eru líka rök fyrir því eins og maðurinn myndi segja, „it's good business,“ herra forseti, að stunda náttúruvernd. Ef okkur tekst vel til munum við uppskera ríkulega.

Þess vegna skiptir máli að svona þingsályktunartillaga komi hér fram, stefnumarkandi um landsáætlun, um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Okkur kann að greina á um einstaka liði en ég hygg að meginramminn sem hér er lagður sé með þeim hætti að við getum öll sameinast um hann.