148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[18:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé svona nett íhaldssemi sem sameinar okkur, hv. þingmann og mig, en angi af þessu sama máli en akkúrat hinum megin, af því að þingmaðurinn hv. sagði: Það eru jarðir sem við eigum „absolut“ að eiga öll saman. Ég er honum hjartanlega sammála um það.

Það leiðir hugann að því að núna mjög nýlega misstum við einn slíkan bita úr höndunum á okkur sem ég tel að ríkið hefði átt að ganga inn í, þ.e. Grímsstaði á Fjöllum. Á sínum tíma var mikið fjaðrafok út af áhuga erlends manns á þeirri jörð. Að lokum endaði hún í erlendri eigu, annars þjóðernis — skiptir ekki máli. En á sínum tíma þegar mesta moldviðrið var um þessa jörð og mesta umræðan, kom í ljós hvað það var sem menn voru að sækjast eftir; það er væntanlega engin jörð á Íslandi sem á jafn mikið af ferskvatnsréttindum og Grímsstaðir á Fjöllum. Nú er þetta farið úr okkar höndum, alla vega í bili, nema ríkið geri eiganda jarðarinnar tilboð sem hann getur ekki hafnað og við kaupum jörðina aftur.

Þá kemur þessi spurning: Hvað telur þingmaðurinn að við eigum að ganga langt í þessu skyni? Vestur á Hornströndum er mikið land í einkaeigu inni í friðlýstu svæði, í friðlandi. Þar gilda ákveðnar reglur um sölu á þeim jörðum sem þar eru. Telur þingmaðurinn t.d. að við ættum að gera gangskör að því að ríkið eignaðist þar töluvert af jarðnæði til þess að vernda svæðið og til þess að tryggja að umferð um það verði áfram eins og við viljum? Þá er ég að tala um ríkisvaldið, þ.e. að ekki sé hætta á að menn fari að demba þangað farþegum af skipum, (Forseti hringir.) eins og hefur reyndar aðeins borið á, og gera sitt til þess að vernda þetta svæði enn frekar.