148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um tillögu til byggðaáætlunar 2018–2024. Ég verð að viðurkenna að ég er hæfilega bjartsýn á þær áætlanir sem hafa komið fram og liggja fyrir um byggðaáætlun því að þau fögru fyrirheit sem hafa komið fram í byggðaáætlun hafa því miður ekki alltaf gengið eftir. Menn leggja upp í mikið samráð og eru vel meinandi en oftar en ekki þegar til stykkisins kemur hefur ekki verið fjármagn til að fylgja þeim áformum eftir sem komið hafa fram í byggðaáætlun. Byggðaáætlun þýðir í raun og veru að sveitarfélög vítt og breitt um landið séu samkeppnishæf um fólk og fyrirtæki til búsetu á sínu svæði; að tryggja þá grunnþjónustu sem íbúar gera kröfu til og fjármagna hana, að tryggja samgöngur á milli svæða, og að hægt sé að segja að sú lágmarksþjónusta sem íbúar hvar sem er á landinu gera kröfu til í dag sé til staðar.

Atvinnulífið þarf að styðja og auka fjölbreytni. Það hangir margt á spýtunni sem er á ábyrgð stjórnvalda og sveitarfélaganna sjálfra, hvernig þetta samspil leikur allt saman. Mér líst þannig á að við göngum fram með metnaðarfulla byggðaáætlun. Auðvitað bindur maður við hana vonir og óskir og getur lítið annað en treyst á að fjárlögin muni endurspegla þetta næstu árin, að menn sýni viljann í verki. Þar kemur ýmislegt fram sem er áhugavert. Ég hef nefnt í umræðum hugmyndir um að skilgreina þjónustu á hverju kjarnasvæði og get nefnt tilraun eins og er nú gerð á Þingeyri og heitir Blábankinn þar sem ýmsir opinberir aðilar koma saman á einum stað til að sinna þjónustuhlutverki. Ég held að það sé mjög spennandi tilraun sem þarf að fylgja eftir með stuðningi og fjármagni, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga.

Svo er að gera kröfur til ráðuneyta að fylgja eftir þeim verkefnum sem eru undir hverju ráðuneyti sem snúa að byggðamálum. Það hefur oft gengið ansi erfiðlega að toga út úr ráðuneytum opinber störf, störf án staðsetningar, þegar á reynir. Þar er mikil íhaldssemi í gangi. Ég vona að þessi tilraun núna til að fara öðruvísi inn í það verkefni skili árangri. Það hefur oftar en ekki verið þannig að þegar einhver störf fara út á land þurfa heimamenn að berjast með kjafti og klóm fyrir að halda þeim störfum. Menn fara stundum tvö skref áfram, eitt aftur á bak og eru á víxl í eilífum slag við að halda því sem náðst hefur með mikilli fyrirhöfn.

Samgöngur eru auðvitað eitt af lykilatriðunum. Þá hugsar maður um hvernig menn sjái fyrir sér stuðning eins og við flugið. Flugið er hluti af almenningssamgöngum í landinu. Ætlum við að fara að hrinda í framkvæmd hugmyndum eins og hafa verið nefndar, t.d. skosku leiðina? Mér finnst það mjög spennandi leið sem þurfi að fara að gera tilraunir með sem fyrst, það sé ekki eftir neinu að bíða. Fjallað hefur verið um þetta á Alþingi þó nokkuð lengi, að skoða þessa skosku leið. Ég held að löngu tímabært sé að hrinda tilraun í þá áttina í framkvæmd hér innan lands. Það myndi skipta miklu máli fyrir jöfnun búsetu. Fólk á landsbyggðinni þarf að nýta sér innanlandsflugið mjög mikið til að sækja hina ýmsu þjónustu á höfuðborgarsvæðið. Almenningssamgöngur í landi, það þarf að styðja við að hægt sé að halda þeim gangandi sem best áfram. Manni heyrist mörg landsvæði vera með uppgjafartón í þeim efnum.

Hægt er að nefna ýmislegt eins og flutningsjöfnuð. Ég hef talað fyrir því að hann yrði útfærður miklu meira en verið hefur. Hann hefur miðast við fyrirtæki í útflutningsgeiranum. Ég held að við þurfum að útfæra það. Mér skilst að undir liggi að skoða stuðning við önnur fyrirtæki á landsbyggðinni, bæði verslun og þjónustu sem þurfa að reiða sig á flutninga, sem kemur síðan fram í þjónustu- og vöruverði hjá íbúum á landsbyggðinni. Það þarf að beita jöfnunarákvæðum inn í þann geira, finnst mér.

Síðan er það afhendingaröryggi raforku. Það er auðvitað eitt af því sem er stórt og mikið byggðamál sem skiptir íbúana miklu máli. Eilífðarbarátta virðist í gangi í þeim efnum. Það er hlutur sem við verðum að fara að sjá fyrir endann á hvernig hægt er að tryggja öruggt flutningskerfi raforku og bæta raforkuöryggið.

Við erum á góðri leið með ljósleiðaravæðinguna eins og komið hefur fram en erum aftarlega á merinni með hluti eins og þriggja fasa rafmagn. Á sumum svæðum þar sem t.d. landbúnaður er, segjum eins og í mínu kjördæmi, á Mýrunum, þar sem eru mjólkurbú, þar eru bændur kannski á þeim aldri að ný kynslóð tekur ekkert endilega við ef ekki verður boðið upp á þriggja fasa rafmagn á því svæði. Þar þola menn ekki að slíkt gerist eftir 15 ár. Ef það gerist ekki innan tíu ára held ég að ansi erfitt verði að koma aftur af stað atvinnu til sveita á því svæði. Við erum að keppa þar við tíma, að tryggja mörgum landsvæðum það sem eðlilegt þykir á öðrum stöðum í þéttbýli, til að tryggja þar áframhaldandi búsetu. Það rennur hratt úr tímaglasinu í þeim efnum.

Komið hefur verið inn á ýmislegt hér og má lengi tala um byggðamálin. Ég er og verð og hef verið mikill talsmaður eflingar smábátaútgerðar í landinu. Ég tel hana eitt af þeim málum sem skiptir litlar sjávarbyggðir gífurlegu máli. Ein ódýrasta leiðin til að styrkja þessar sjávarbyggðir er að efla smábátaútgerð vítt og breitt um landið. Það kallar líka á fjölbreytni og styrkir undirstöðurnar og gefur möguleika á fjölbreytni í atvinnulífinu í kjölfarið. Ég tel að hlutir eins og efling strandveiða sé ein af ódýrum og útlátalitlum aðgerðum af hálfu ríkisins. Menn þurfa stundum að horfa til þess sem blasir við augum þegar kemur að umræðu um styrkingu byggða. Menn þurfa ekki alltaf að finna upp hjólið í þeim efnum þótt brýnt sé að horfa til fjölbreytni í atvinnuframboði, menntun og heilbrigðismálum, vegasamgöngum. Það eru stundum ýmis tækifæri sem blasa við heimafólki vítt og breitt um landið sem ríkisstjórnin þarf stundum aðeins að horfa til og taka mark á þegar byggðamál eru í umræðunni en draga þetta ekki allt of miðstýrt til sín og gera þetta út frá miðstýringarvaldinu, heldur fara í grasrótina og kalla eftir því sem heimamenn telja að nýtist best til uppbyggingar.

Eins og ég skildi hæstv. ráðherra í framsögu sinni á þessu máli hefur undirvinnan verið mjög góð. Ég vona að þessi byggðaáætlun verði okkur drjúg til að efla og styrkja byggð í landinu því að mjög brýnt er að við höfum jafnvægi í búsetu og byggð landsins.